28.7.1999 0:00

Miðvikudagur 28.7.1999

Síðdegis skruppum við Rut í Reykholt og hlýddum þar um kvöldið á fróðlegan fyrirlestur Guðrúnar Sveinbjarnardóttur fornleifafræðings um rannsóknir í Reykholti. Eru þetta umfangsmestu fornleifarannsóknir, sem þar hafa farið fram. Aðstæður eru nú betri en áður eftir að íþróttahús og smíðahús við skólann hafa verið rifin. Rannsóknirnar hafa þegar leitt í ljós hluti, sem fornleifafræðingar hafa ekki séð annars staðar. Verður spennandi að fylgjast með framhaldinu en ekki er vafi á því að áhugi annarra þjóða manna á þessum rannsóknum á eftir að aukast og þær verða mikið aðdráttarafl í þeirri viðleitni að stofna til alþjóðlegs miðaldafræðaseturs í Reykholti. Snorrastofa hefur farið vel á stað og ímynd staðarins hefur breyst á miklu skemmri tíma en hefði mátt vænta. Fyrirlestrar þar draga að sér fjölda fólks og voru til dæmis hátt í 100 manns að hlýða á Guðrúnu þessa kvöldstund.