13.5.1998 0:00

Miðvikudagur 13.5.1998

Að venju var almennur viðtalstími minn í ráðuneytinu um morguninn og tók ég á móti mörgum viðmælendum. Tekst mér enn að halda listanum yfir þá, sem vilja ræða við mig innan hóflegra marka. Nokkur röskun hefur þó orðið undanfarið vegna utanferða og óvissu um þingstörfin. Til dæmis þurfti ég að rjúka úr viðtalstímanum þessa morgunstund vegna þess að boðað var til atkvæðagreiðslu á Alþingi, af henni varð þó ekki á boðuðum tíma vegna athugasemda stjórnarandstöðunnar. Tek ég undir það með Pétri Blöndal, að Alþingi er sá vinnustaður, þar sem minnst virðing er borin fyrir tíma manna, er hann þó ein dýrmætasta eign hvers og eins. Þessari eign er sóað á þessum vinnustað. Um kvöldið fórum við í Iðnó, sem opnað var endurgert að nýju. Eru þar hin glæsilegustu húsakynni.