15.7.1998 0:00

Miðvikudagur 15.7.1998

Við Rut flugum til Barcelona, tókum okkur bíl á leigu og ókum um Pyreneafjöllin í fimm daga. Fórum meðal annars litla fjallalandið Andorra, þá heimsóttum við pílagrímabæinn Lourdes í Frakklandi. Þar gerðist það frá febrúar fram í júlí 1858, að fjórtán ára stúlka, Bernadette, sá heilaga guðsmóður, Maríu mey, átján sinnum. Nú koma rúmlega fimm milljónir manna árlega, einkum á tímanum frá páskum fram að allra heilagra messu, 1. nóvember, til Lourdes sem pílagrímar. Margir eru mjög veikir og leita sér lækninga, aðrir óska eftir að komast á þennan helga stað fyrir dauða sinn og svo eru hinir, sem vilja efla trú sína með þátttöku í bænahaldi og trúarathöfnum. Er ógleymanleg reynsla að heimsækja Lourdes og fá örlitla tilfinningu fyrir því heita trúarlífi, sem þar ríkir. Fyrir nokkrum árum fórum við til helsta pílagrímastaðar Pólverja í Jasna Gora, þar sem er mynd af hinni svörtu Madonnu, drottningu Póllands og verndara gegn óvinum lands og þjóðar. Þar var allt annars konar andrúmsloft en í Lourdes, þangað sem menn koma einkum til að leita sér lækninga og sáluhjálpar. Til Jasna Gora streymdu Pólverjar til að staðfesta ættjarðarást sína og trú. Á þessum fáu dögum gafst aðeins tími til að sjá lítinn hluta fjallanna, sem eru mjög tignarleg. Við snerum aftur heim 22. júlí.