31.8.1999 0:00

Þriðjudagur 31.8.1999

Um hádegisbilið kom hingað til lands Bridget Mabandla, sem fer með menningarmál, rannsóknir og vísindi í ríkisstjórn Suður-Afríku. Voru þrír samstarfsmenn hennar með í ferðinni. Ráðherrann var á ferð til allra Norðurlandanna í tilefni af því að undanfarna mánuði hefur norræna ráðherranefndin staðið fyrir samstarfi um menningarmál við S-Afríku og hefur meðal annars verið efnt til norrænna menningarviðburða í S-Afríku, lýkur þessu formlega samstarfi núna í september og stendur til að ég fari þangað af því tilefni sem formaður ráðherranefndarinnar á þessu ári. Var ánægjulegt að taka á móti frú Mabandla og samstarfsmönnum hennar. Þau höfðu mikinn áhuga á að kynnast Íslandi og hvernig hér er staðið að úrlausn ýmissa mála, þótt langur vegur sé frá því, að þjóðfélag þeirra sé á sama stigi og okkar, þó að ekki sé nema vegna þess eins, að þar eru ellefu opinber tungumál. Dvöldust gestirnir hér til fimmtudags 2. september.