11.8.1998 0:00

Þriðjudagur 11.8.1998

Fór í viðtal við ríkissjónvarpið, sem vildi ræða við mig um framkvæmdir við Menntaskólann í Reykjavík. Þar er nú unnið að því koma húsi sem Davíð S. Jónsson og börn hans gáfu til minningar um Elísabetu Sveinsdóttur, eiginkonu Davíðs, í notkun fyrir skólann og reisa tengibyggingu milli hússins og Casa Nova, kennsluhúss MR. Kostar framkvæmdin 111 milljónir króna og á henni að verða lokið fyrir áramót. Spurt var, hvaða frekari áform væru vegna MR. Ég sagði, að næst yrði ráðist í viðgerð á gamla skólahúsinu, en hugmyndir væru um menntaskólaþorp á reitnum við skólann og talið, að alls myndi kosta um einn milljarð að reisa ný hús og gera við gömul. Lét ég þess getið, að ekki yrði unnt að ráðast í frekari framkvæmdir án samnings við Reykjavíkurborg um fjárhagslega þátttöku hennar og um skipulag á MR-reitnum. Þetta viðtal, sem ég sá ekki í 11-fréttum sjónvarpsins, virðist hafa farið fyrir brjóstið á ýmsum. Vef-Þjóðviljinn hneykslast á því, að ég hafi nefnt kostnað allt að milljarði við að ljúka öllu, sem menn telja nauðsynlegt að framkvæma á MR-reitnum, og notar síðan tækifærið til að hnýta í tónlistarhúsið, sem er einskonar kækur hjá ritstjórn þess blaðs - skil ég ekki, hvers vegna þessir miklu hugsjónamenn átta sig ekki á gildi mannvirkis í þágu tónlistar.