10.10.2000 0:00

Þriðjudagur 10.10.2000

Hitti í morgunverði Magnús Bjarnason og Pétur Óskarsson í viðskiptaskrifstofu sendiráðs Íslands í NY og Einar Gústavsson frá Ferðamálaráði, sem lýstu fyrir mér umfangi hinnar miklu kynningar, sem Ísland hefði fengið vegna komu Íslendings og Víkingasýningar Smithsonian. Sýndu mér mikið af blaðaúrklippum og löngum greinum auk mynda úr sjónvarpsþáttum. Fór með Magnúsi og Thor H. Thors í New York University, þar sem ég afhenti bóksafni þess Íslendingasögurnar að gjöf. Heimsóttum Museum of Natural History við Central Park West, þar sem Nancy Lynn sýndi okkur, hvernig að því er staðið að setja þar upp víkingasýninguna frá Smithsonian. Finnst mér hún jafnvel glæsilegri þarna en í Washington auk þess sem Ísland er meira áberandi í NY, vegna þess að sýndar eru sérstaklega stórar Íslandsmyndir eftir Pál Stefánsson, ljósmyndara. Við Thor fórum í Columbia University, þar sem ég afhenti Íslendingasögurnar í Butler-bókasafninu. Snæddum hádegisverð í mötuneyti skólans með tveimur íslenskum nemendum: Hauki Jónassyni, sem leggur stund á guðfræði, og Sigríði Björnsdóttur, sem er í Columbia School of Journalism. Fórum síðan með þeim á fund hjá Jonathan R. Cole sem er Provost skólans. Síðdegis var athöfn í Waldorf Astoria hótelinu til að minnast þess, að 1931 vann Nína Sæmundsson myndhöggvari samkeppni um styttu yfir anddyri þessa fræga hótels. Þarna var Ríkey Ríkharðsdóttir frænka Nínu, sem hefur beitt sér fyrir því, að minning hennar væri í heiðri höfð. Ég sagði nokkur orð og einnig Eric Lang hótelstjóri auk þess sem Egill Ólafsson og félagar fluttu tvö lög. Flaug heim um kvöldið.