12.4.1999 0:00

Mánudagur 12.4.1999

Fyrir hádegi sótti ég stefnuþing MENNTAR og flutti þar ræðu um samstarfs atvinnulífs og skóla í hefðbundnum stíl. Skömmu fyrir hádegi héldum við Sturla Böðvarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins á Vesturlandi, í bíl hans vestur á Snæfellsnes. Á leiðinni slógust þau Guðjón Guðmundsson alþingismaður og Helga Halldórsdóttir, sem skipar þriðja sæti á listanum í för með okkur. Fórum við sem leið lá í Lýsuhólsskóla, sem hafði fagnað 30 ára afmæli sínu laugardaginn, 10. apríl. Þar slógust forystumenn í Snæfellsbæ í hópinn. Eftir að hafa notið gestrisni skólastjóra og samstarfsmanna hans héldum við til Ólafsvíkur, þar sem við heimsóttum grunnskólann. Þar hitti ég skólastjóra og kennara á fundi og einnig nemendur í 10. bekk, sem voru að búa sig undir samræmdu prófin. Stjórnendur skólans í Ólafsvík, kennarar, nemendur og foreldrar hafa ákveðið að taka höndum saman um að bæta skólastarfið. Var skemmtilegt að kynnast þeim góða baráttuanda, sem þar ríkti. Næst lá leiðin til Hellisands, þar við heimsóttum grunnskólann. Við ókum síðan í kringum Snæfellsjökul með viðkomu í skemmtilegu Fjörhúsinu á Hellnum. Um kvöldmatarleytið vorum við í Grundafirði og heimsóttum grunnskólann þar. Einnig gafst tækifæri til að ræða um samstarf heimamanna, menntamálaráðuneytisins, Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi og Verkmenntaskólans á Akureyri um tölvuvætt framhaldsnám í Grundarfirði.