5.5.1997 0:00

Mánudagur 5.5.1997

Að morgni mánudagsins 5. maí hitti ég hóp norrænna blaðamanna, sem hér var á ferð til að kynna sér menningarlífið. Dvöldust þeir meðal annars norður í Skagafirði og fylgdust með síðustu dögum Sæluvikunnar á Sauðárkróki. Var greinilegt, að þeim hafði til dæmis þótt mikið til þess koma að sjá Pétur Gaut undir leikstjórn Gunnars Eyjólfssonar, sem einnig lék í sýningunni. Á fundi mínum með blaðamönnunum lagði ég áherslu á, að ríkið ætti ekki að hafa það að markmiði að koma sjálft á laggirnar bákni til að sinna menningarmálum heldur bæri að nýta opinbert fé til þess að styrkja einstaklinga til listsköpunar. Þótti þeim ýmsum þetta næsta ábyrgðarlaus afstaða, enda líklega vanari því að vinstrisinnar í ríkisstjórnum landa þeirra telji málum best borgið með sem mestum afskiptum ríkisins.