26.4.2017 12:16

Njálurefillinn á ÍNN

Í kvöld verður viðtal mitt við Kristínu Rögnu Gunnarsdóttur, teiknara og rithöfund, í þætti mínum á ÍNN (frumsýning kl. 20.00).

Í kvöld verður viðtal mitt við Kristínu Rögnu Gunnarsdóttur, teiknara og rithöfund, í þætti mínum á ÍNN (frumsýning kl. 20.00).

Tilefni þess að ég ræði við Kristínu Rögnu er að hún hannaði og teiknaði myndirnar fyrir Njálurefilinn sem verið er að sauma í Sögusetrinu á Hvolsvelli. Kristín Ragna er sjálfstætt starfandi grafískur hönnuður, teiknari og rithöfundur. Hún útskrifaðist úr grafískri hönnun frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1992 og lauk BA-prófi í bókmenntafræði og MA-prófi í ritlist frá Háskóla Íslands. Kristín hefur hlotið margar viðurkenningar fyrir verk sín, m.a. Dimmalimm - Íslensku myndskreytiverðlaunin í tvígang og hún hefur tekið þátt í sýningum víða.

Sagan um hvernig Kristín Ragna kom að gerð Njálurefilsins er skemmtileg. Hundruð manna hafa komið að því að sauma refilinn síðan í febrúar 2013. Stefnt er að verklokum á næsta ári. Enn hefur ekki verið kynnt hvar þetta 90 m langa listaverk verður til frambúðar.

009-HeimasaeturHér er verið að sauma refilinn.

001-Njall--Svona er Njáll kynntur til sögunnar.

Um leið og ég vek athygli á þætti mínum í kvöld vil ég nefna að nú hef ég sett nöfn viðmælenda minna á sjónvarpsstöðinni ÍNN frá desember 2010 hér inn á síðuna undir tenglinum Þættir á vefsláinn. Stöðin tók þá að vista þætti sína á netinu. Það er þó ekki fyrr en 2012 sem vistun á netinu verður regluleg.

Fram til apríl 2014 notaði ÍNN YouTube og fylgja krækjur á þætti þar með nöfnum viðmælenda á listanum hér á síðunni. Frá apríl 2014 eru þættir aðgengilegir á Vimeo og nægir að slá á myndina hér á síðunni til að kalla upp viðkomandi þátt.

Fyrsti þáttur minn á ÍNN var fluttur í ágúst 2009.