27.6.2018 10:09

Náttúrufræðistofnun vaknar

Í nýjustu rammaáætlun er ekki lagst gegn Hvalárvirkjun á Ströndum en nú hefur Náttúrufræðistofnun Íslands gert tillögu um friðlýsingu á svæðinu.

Árið 1999 var ráðist í að gera rammaáætlun um vernd og nýtingu landsvæða meðal annars með tilliti til virkjanakosta. Þessu starfi er lýst á þennan veg á vefsíðu Landsvirkjunnar:

„Rammaáætlun er áætlun um vernd og nýtingu landsvæða. Með henni er skorið úr um hvort nýta megi landsvæði til orkuvinnslu eða hvort beri að friðlýsa svæði gagnvart vinnslu. Rammaáætlun er ætlað að tryggja að nýting landsvæða byggist á langtímasjónarmiðum og víðtæku samráði um verndargildi náttúru og menningar, hagkvæmni og arðsemi.

Í rammaáætlun um verndar- og orkunýtingu landsvæða eru virkjunarkostir flokkaðir í orkunýtingar-, bið- og verndarflokk á grundvelli laga nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun. Gert er ráð fyrir að rammaáætlun verði uppfærð á fjögurra ára fresti hið minnsta.“

Í nýjustu rammaáætlun er ekki lagst gegn Hvalárvirkjun á Ströndum en nú hefur Náttúrufræðistofnun Íslands gert tillögu um friðlýsingu á svæðinu þar sem virkjunin á að rísa. Þá er Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hvattur til þess að leggja nýja náttúruminjaskrá fyrir alþingi um leið og þinghald hefst í haust. Verði Guðmundur Ingi við tillögunni er ljóst að framkvæmdir vegna virkjunarinnar eru í uppnámi.

Undanfarin misseri hefur verið stofnað til mikils andófs gegn Hvalárvirkjun, meðal annars þegar opnuð var listsýning á Kjarvalsstöðum við upphaf Listahátíðar í Reykjavík fyrir nokkrum vikum. Ekki er ólíklegt að þessi málflutningur hafi haft áhrif á þá sem ráða ferðinni hjá náttúrufræðistofnun og stuðlað að gerð tillögunnar um friðlýsingu. Hafi slík ósk kom fram við gerð rammaáætlunarinnar var henni hafnað.

Þriðjudaginn 26. júní staðfesti Skipulagsstofnun breytingu á aðalskipulagi Árneshrepps í tengslum við undirbúningsframkvæmdir fyrrgreindrar Hvalárvirkjunar.  Ber að halda vegaframkvæmdum um fyrirhugað virkjanasvæði í algjöru lágmarki og sleppa vegagerð þar sem mögulegt er. Svæðið skal að lokum vera sem líkast því sem það var áður en framkvæmdir hófust.

Með gerð svonefndra rammaáætlana átti einmitt að útiloka uppákomur eins og þær sem nú er stofnað til af náttúrufræðstofnun. Vilji stofnunin rjúfa sáttargjörðina sem í áætluninni felst er horfið 20 ár aftur í tímann og skipulegir stjórnarhættir að engu hafðir.

Í þessu máli eins og svo mörgum öðrum sem koma inn á borð núverandi umhverfisráðherra vaknar spurning um hæfi hans til að taka ákvörðun vegna fyrri afskipta og afstöðu sem forystumaður landverndarmanna. Það væri í takt við virðingarleysi náttúrustofnunar fyrir góðum stjórnsýsluháttum að ráðherrann teldi sig hæfan til að afgreiða tillögu stofnunarinnar.