26.3.2017 10:36

NATO og flotaumsvif Rússa á norðurslóðum

Hvort sem okkur Íslendingum líkar betur eða verr verðum við að taka afstöðu og við höfum gert það með aðildinni að NATO.

Á vefsíðunni vardberg.is birtist í dag grein úr vefblaði NATO þar sem norskur ofursti segir frá þróun mála fyrir 50 árum þegar ráðamenn innan NATO viðurkenndu að nauðsynlegt væri að huga að flotaumsvifum Sovétmanna á norðurslóðum. Þeir höfðu breytt Norðurflota sínum í miðlægan hluta sovéska heraflans. Þar voru langdrægu kjarnorkukafbátarnir, þungamiðjan í endurgjaldsgetu Rússa yrði á þá ráðist.

Orðið endurgjaldsgeta er þýðing á ensku orðunum second strike capability. Í þessari getu felst að sé ráðist á ríki hafi það mátt til að svara með því að gjöreyða andstæðingi sínum. Þess vegna er talað um mutual assured destruction (MAD), gagnkvæma gjöreyðingu. Þetta er þungamiðja fælingarkenningarinnar deterrence concept: vitundin um yfirvofandi gjöreyðingu haldi aftur af þeim sem ráða yfir langdrægum eldflaugum búnum kjarnaoddum sem eru faldar í risakafbátum í hafdjúpunum.

Gjert Lage Dyndal ofursti lýsir í grein sinni, sem má lesa hér, hvernig rannsóknir og skýrslur opnuðu augu manna fyrir 50 árum og þeir áttuðu sig á nauðsyn þess að NATO mótaði sjálfstæða varnarstefnu vegna þróunarinnar á norðurslóðum.

Tilgangur greinarinnar er augljóslega einnig að vekja ráðamenn innan NATO á árinu 2017 svo að gerðar séu ráðstafanir vegna endurnýjunar Rússa á flota kjarnorkukafbáta sinna og sóknar þeirra frá heimahöfnum á Kóla-skaga með Barents-hafið sem helsta athafnasvæði sitt og brjóstvörn. Til að tryggja öryggi þessara báta sem standa að baki tilkalli rússneskra ráðamanna til að litið sé á þá sem forystumenn risaveldis hafa Rússar sent árásarkafbáta, flugvélar og herskip út á Norður-Atlantshaf og nær sá varnarbaugur til Íslands.

Kortið birtist í Morgunblaðinu 10, mars 2017.

Tækninni hefur fleygt fram undanfarin ár og Rússar ráða nú til dæmis yfir langdrægum stýriflaugum til árása á skotmörk á jörðu sem þeir áttu ekki í kalda stríðinu. Þessum flaugum var til dæmis beitt frá herskipum til árása á skotmörk í Sýrlandi.

Andstaða Rússa við eldflaugavarnir NATO og Bandaríkjamanna ræðst af ótta þeirra við að grafið verði undan endurgjaldsgetu þeirra og þar með stöðunni sem risaveldi.

Hvort sem okkur Íslendingum líkar betur eða verr verðum við að taka afstöðu og við höfum gert það með aðildinni að NATO.