22.8.2018 10:04

Mueller „hreinsar pyttinn“ í Washington

Donald Trump hafði uppi stór orð um að hann ætlaði að „hreinsa pyttinn“ í Washington, það er spillingu af öllu tagi í tengslum við stjórnmál og stjórnarhætti.

Engum blöðum er um það að fletta að Donald Trump varð fyrir þungum höggum þriðjudaginn 21. ágúst þegar Michael Cohen, einkalögfræðingur hans og „reddari“ í um áratug, játaði sekt sína fyrir margvísleg brot, og Paul Manafort, fyrrv. formaður kosningastjórnar forsetans, var fundinn sekur um átta ákæruliði vegna banka- og skattsvika.

Cohen samþykkti réttmæti átta ákæruliða gegn sér, þar á meðal að hafa brotið lög um ráðstöfun fjár til kosningabaráttu og tengdi Trump beint við ákvörðun um fjárgreiðslur til kvenna svo að þær segðu ekki frá sambandi sínu við Trump.

„Þetta er versti klukkutíminn í allri forsetatíð Trumps ­– nei, við skulum segja á allri lífsleið hans,“ sagði Norman Eisen á Twitter en á sínum tíma var hann ráðgjafi Baracks Obama forseta um siðferðileg málefni.

Þingmenn repúblíkana fóru fáum orðum um þessi erfiðu mál en sögðu þó að þau snertu ekki Trump beint og snerust ekki um leynimakk við Rússa.

Í fyrri viku var sagt að Trump hefði ákveðið að svipta John Brennan, fyrrv. forstjóra CIA, öryggisvottun hans einmitt þá til að draga athygli frá Omarosu Mainugault-Newman sem um árabil studdi Trump en var rekin úr Hvíta húsinu í janúar 2018 og hefur nú sent frá sér bók með ávirðingum um Trump. Hvað forsetinn gerir nú til að draga athygli frá þessum sakamálum kemur í ljós.

1534885917234Michael Cohen og Paul Manafort.

Donald Trump hafði uppi stór orð um að hann ætlaði að „hreinsa pyttinn“ í Washington, það er spillingu af öllu tagi í tengslum við stjórnmál og stjórnarhætti. Í fylgdarliði forsetans voru greinilega einstaklingar sem áttu annað erindi til Washington en að verða þar siðferðilegar fyrirmyndir.

Sakamálin vekja enn spurningar um mannþekkingu og dómgreind Trumps. Nú hafa þjóðaröryggisráðgjafi hans, einkalögfræðingur, formaður kosningastjórnar, vara-kosningastjóri og ráðgjafi um utanríkismál játað eða hlotið dóm fyrir afbrot.

Rannsókn Roberts Muellers, sérstaks saksóknara, á hugsanlegu leynimakki kosningastjórnar Trumps við Rússa „hreinsar pyttinn“ í Washington. Trump og stuðningsmenn hans vilja að Mueller hætti strax því sem þeir kalla „nornaveiðar“ gegn forsetanum. Ólíklegt er að það gerist í bráð.