28.11.2017 9:35

Mesta breyting í stjórnmálum í 100 ár

Með nýrri ríkisstjórn verður mesta kerfisbreyting á íslenskum stjórnmálavettvangi frá því að grunnur var lagður að flokkakerfi landsins fyrir 100 árum. Aldrei fyrr hafa flokkar sem þessir tekið höndum saman um landstjórnina.

Forystumenn flokkanna þriggja sem nú vinna að stjórnarmyndun og ætla að leggja tillögu sína fyrir stofnanir flokka sinna á morgun, miðvikudaginn 29. nóvember, hittu forystumenn fjögurra stjórnarandstöðuflokka mánudaginn 27. nóvember. Tilefni fundarins var að ræða störf alþingis og til dæmis hvernig staðið skyldi að afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2018, hvort leggja ætti frumvarpið sem lagt var fyrir þing fyrir kosningar til grundvallar eða nýtt frumvarp.

Ákvörðun um þetta snýst meira um form en efni. Með nýjum lögum um opinber fjármál hafa ný vinnubrögð verið ákveðin um gerð fjárlagafrumvarp, fjármálastefnu og fjármálaáætlun. Við stjórnarmyndun og gerð sáttmála fyrir nýja ríkisstjórn ber að taka mun ríkara tillit til fjárlagagerðar og fjármála ríkisins en tíðkast hefur.

Af orðum forystumanna stjórnarandstöðuflokkanna má ráða að formhlið fjárlagaafgreiðslunnar hafi verið rædd á fundi forystumanna flokkanna. Efnislegir þætti fjárlagafrumvarps eru aldrei kynntir opinberlega fyrr en það er lagt fram sem fyrsta þingskjal ný þings.

Þessi myhd eftir Hari birtist  á mbl.is af fundi forystumanna þingflokkanna í þinghúsinu mánudaginn 27. nóvenber.

Af fréttum um fund flokksleiðtoganna má ráða að stjórnarandstaðan vilji nýtt frumvarp en ekki frumvarp á grunni þess sem Benedikt Jóhannesson, þáv. formaður Viðreisnar, lagði fram sem fjármálaráðherra fyrir kosningar. Þeir setja ekki fyrir sér að setning alþingi dragist um nokkra daga vegna þessa.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sem tók við af Benedikt sem formaður Viðreisnar segir á ruv.is. að mikilvægt sé að ríkisstjórn leggi fram sitt pólitíska fjárlagafrumvarp. Hún hefur þó áhyggjur af því að ekki sé vilji til kerfisbreytinga meðal stjórnarmyndunarflokkanna þriggja.

„Ég óttast það að hún muni ekki þora í neinar kerfisbreytingar, ekki bara á sjó og landi. Það þarf ekki bara að láta fjármagn fylgja með inn í heilbrigðis- og menntamálin. Það þarf að þora að breyta kerfinu og byggja það upp með öðrum hætti.“

Þetta er gamalkunnur söngur. Hann á þó illa við verði ríkisstjórn Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og VG mynduð. Með henni verður mesta kerfisbreyting á íslenskum stjórnmálavettvangi frá því að grunnur var lagður að flokkakerfi landsins fyrir 100 árum. Aldrei fyrr hafa flokkar sem þessir tekið höndum saman um landstjórnina.

Íslenska þjóðfélagið breytist ört eins og önnur þjóðfélög. Sveigjanleiki þess er meiri og afdráttarlausari en flestra annarra. Þetta hefur til dæmis sannað sig í því hvernig tekist hefur á fáum árum að endurreisa efnahagskerfið eða að taka á móti hundruð þúsunda fleiri ferðamönnum en spáð var að takast mætti.

Nú gengur stjórnmálakerfið í endurnýjun lífdaga. Á slíkum tímamótum eiga stjórnmálamenn að beina athygli að nýjum vaxtarbroddum án þess að vega að því sem þjóðinni hefur dugað lengst og best sjávarútvegi og landbúnaði. Í því felst mikil skammsýni að ætla að rífa hornsteinana við upphaf nýrra tíma í stjórnmálum.