8.2.2018 12:10

Martin Schulz eru mislagðar hendur

Að endurnýjuð samsteypustjórn stóru flokkanna ætli að setja Evrópumál á oddinn í anda Schulz er líklegt til að auka fylgi almennings við AfD.

Nú hefst barátta innan þýska Jafnaðarmannaflokksins (SPD) fyrir stuðningi við stjórnarsáttmálann og ríkisstjórnina með kristilegum (CDU/CSU) fram til ársins 2021 undir forsæti Angelu Merkel. Um 460.000 félagar í SPD greiða atkvæði um stjórnarsamstarfið. Ungliðahreyfing flokksins er sögð andvíg samstarfinu en það var Martin Schulz, leiðtogi flokksins, einnig þar til honum snerist hugur. Nú verður hann utanríkisráðherra og boðar átak í þágu Evrópusamstarfsins og brotthvarf frá aðaldsstefnu í ríkisfjármálum en fjármálaráðuneytið fellur einnig í hlut SPD.

Þetta er fjórða kjörtímabilið sem Angela Merkel leiðir ríkisstjórn Þýskalands. Líklegt er að hún verði ekki oftar í forystu flokks síns, CDU, í kosningum og þess vegna beinist athygli nú að því hver verði eftirmaður hennar.

Þriðji stærsti þingflokkurinn í Berlín er Alternativ für Deutschland (AfD) sem upphaflega var stofnaður gegn evrunni en hefur aflað sér mikils fylgis á skömmum tíma vegna andstöðu við útlendingastefnuna sem Merkel mótaði á síðasta kjörtímabili. Andúð gegn útlendingastefnunni leiðir til ólundar í garð ESB og AfD hefur náð til kjósenda sem þykir nóg um fjárhagslegar byrðar á Þjóðverja vegna evrunnar og vandræðanna á evru-svæðinu.

Martin Schulz

Á meðan Schulz var enn á þeim buxunum að eiga ekki samstarf við Merkel notaði hann meðal annars þau rök að ekki mætti veita AfD þann sess að verða stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, það yrði til að auka veg flokksins og ef til vill styrkja hann í sessi.

Að endurnýjuð samsteypustjórn stóru flokkanna ætli að setja Evrópumál á oddinn í anda Schulz er líklegt til að auka fylgi almennings við AfD. „Meiri Evrópa“ er ekki það sem almennir kjósendur innan ESB vilja. Schulz hafa verið mislagðar hendur frá því að hann varð forystumaður SPD með bauki og bramli fyrir ári og naut þá stuðnings um 50% kjósenda þegar Merkel fór niður í 30%. Flest hefur farið á annan veg en Schulz vildi, nú síðast að hann sitji í ríkisstjórn, sem hann sagðist ekki vilja, og boði ESB-stefnu sem kjósendur vilja ekki.

Kristilegir demókratar taka þátt í Evrópusamstarfi stjórnmálaflokka innan samtaka mið-hægriflokka, European People's Party (EPP), stærsta þingflokksins á ESB-þinginu.

Á vefsíðu blaðsins New Europe birtist í dag (8. febrúar) úttekt þar sem segir að innan EPP vaxi efasemdir um að Evrópusambandið sé á réttri braut, ekki sé brýnt að ræða „meiri Evrópu“. Segir að þetta séu umskipti hjá þingflokki sem hafi verið brjóstvörn samrunarþróunarinnar innan ESB og jafnvel málsvari sambandsríkis.

Í úttektinni er gefið til kynna að þessa breytingu innan EPP megi rekja til fylgisaukningar flokka á borð við AfD í Þýskalandi. Það sé enginn vilji til að láta þeim eftir að afla sér fylgis með því að skírskota til vaxandi óvinsælda ESB meðal almennings.

Verði endurnýjun stjórnarsamstarfsins í Þýskalandi til þess að CDU/CSU vilji „meiri Evrópu“ innan EPP magnast spenna á vettvangi ESB sem verður til þess að Martin Schulz nær ekki þessu markmiði sínu frekar en ýmsum öðrum.