27.12.2017 10:12

Magnað aðdráttarafl Hörpu

Magnið skiptir vissulega miklu fyrir rekstur Hörpu en aldrei má slaka á kröfunum um gæði. Séu þær ekki hafðar í heiðri er farið gegn meginmarkmiðinu við smíði hússins.

Forsíðufrétt Morgunblaðsins er um að aldrei fleiri hafi heimsótt Hörpu en í ár, 2,6 milljón gesta. Aukningin hafi verið 45% yfir sumarmánuðina. Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu, segir desember hafa verið mög erilsaman, aldrei hafi verið jafnmargir tónleikar þar í einum mánuði, oft þrennir er að fernir sama daginn og meira eða minna uppselt á þá alla.

Hér hefur áður verið vakið máls á því að Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrv. forseti Íslands, segir að hann hefði aldrei getað beitt sér fyrir stór-ráðstefnunni Arctic Circle nema vegna Hörpu. Aðstaðan þar til ráðstefnuhalds sé einstæð á norðurslóðum. Ráðstefnan hefur einnig náð einstæðri fótfestu á skömmum tíma sem vettvangur allra með áhuga á framvindu mála við norðurskautið.

Harpa er einstök bygging. Ekki má þrengja að henni.

Fjöldinn sem sækir Hörpu kemur í sjálfu sér ekki á óvart í ljósi mikils fjölda ferðamanna sem koma nú til Íslands. Harpa er er eitt af því sem þeir vilja skoða. Þegar litið er til framkvæmda í nágrenni hússins vakna spurningar um hvort þeir sem vinna að skipulagsmálum borgarinnar telji byggðarþéttinguna eiga að leiða til þess að sérstaða Hörpu sem byggingar á einstökum stað í borginni hverfi.

Harpa verður að hafa andrými til að njóta sín sem bygging. Stjórnendur borgarinnar hafa hingað til frekar litið á húsið sem féþúfu en mannvirki sem sé þeim, borgarbúum og þjóðinni mikils virði án þess að sæta skattpíningu. Sé það jafnframt stefna borgaryfirvalda að þrengja að húsinu með nýbyggingum sannast enn betur að þau hafa engan skilning á gildi þess að mannvirki af þessari gerð fái notið sín.

Það voru mistök hjá stjórnendum Hörpu að breyta jarðhæð austurenda hússins með verslun þar. Hún gefur húsinu óæskilegan blæ um leið og stigið er inn í það.

Þegar rætt er um Hörpu má ekki gleymast að þegar lagðar voru línur um húsið fyrir 20 árum var tónlistarflutningur og aðstaða til hans leiðarljósið. Þess vegna var strax gerð ófrávíkjanleg krafa um að hljómburður yrði eins og best verður á kosið. Á öllu ferli húsbyggingarinnar var aldrei horfið frá þeirri kröfu: Eldborg er einstakur salur sem hefur aðdráttarafl fyrir bestu sinfóníuhljómsveitir heims eins og sannast hefur.

Með þessari háleitu kröfu var húsinu og starfsemi innan dyra í því sett metnaðarfullt markmið. Nú þegar forstjóri Hörpu boðar stefnumótunarvinnu í samvinnu við ríki og borg á sjö ára afmæli starfsemi í Hörpu ber að minna á þetta markmið. Magnið skiptir vissulega miklu fyrir rekstur Hörpu en aldrei má slaka á kröfunum um gæði. Séu þær ekki hafðar í heiðri er farið gegn meginmarkmiðinu við smíði hússins.