23.7.2017 16:01

Macron fellur í könnun

Álitsgjafar hafa varað við miklu valdi sem forsetinn hefur í krafti meirihluta flokks hans á þingi eftir góðan sigur í þingkosningum í janúar.

Franska sunnudagsblaðið Journal du Dimanche birtir í dag niðurstöðu skoðanakönnunar sem sýnir að Emmanuel Macron, nýkjörinn Frakklandsforseti, tapar 10 stigum á milli vinsældakannanna. Í júní voru 64% Frakka ánægð með forseta sinn en 54% núna. Enginn forseti hefur hrapað svo mjög milli kannanna síðan 1995.

Árið 1995 var Jacques Chirac nýkjörinn Frakklandsforseti og fékk þá þessa útreið. Þegar hugað er að ástæðunum fyrir minni vinsældum Macrons er fyrst staðnæmst við deilu hans við yfirmann franska heraflans, hershöfðingjann Pierre de Villiers sem sagði af sér miðvikudaginn 19. júlí vegna ákvörðunar forsetans um niðurskurð útgjalda til hersins um 850 milljónir evra.

Franska ríkisstjórnin ætlar að spara 4,5 milljarða evra í ár í því skyni að virða mörk ESB um að halli á ríkissjóði einstakra landa sé innan við 3% af vergri landsframleiðslu.

Þá hafa ýmis mannréttindasamtök gagnrýnt forsetann fyrir harkalegt frumvarp hans sem er orðið að lögum um auknar heimildir ríkisvaldsins til að tryggja innra öryggi í Frakklandi. Er þeim lýst sem „ógnvænlegum“.

Álitsgjafar hafa varað við miklu valdi sem forsetinn hefur í krafti meirihluta flokks hans á þingi eftir góðan sigur í þingkosningum í janúar. Með ýmsum hætti hafi forestinn (aðeins 39 ára) leitast við að sýna vald sitt frá því að hann fékk það í hendur í maí. Orð sem hann lét falla um eigið vald sitt og yfirstjórn franska hersins hafi ráðið miklu um afsögn yfirhershöfðingjans.

Í vinstra blaðinu Lbération segir að „smá ofríkisæði“ forsetans megi ef til vill rekja til þess að runnið hafi á hann „valdavíma“, nú sé tímabært að hann „fullorðnist dálítið“.