3.6.2017 14:08

Lögmenn saka RÚV og ráðherra um lögbrot

Hvað ætli hefðu verið margir snarpir þættir í Kastljósi um opinbert fyrirtæki sem starfaði eins og RÚV?

Einar S. Hálfdánarson skrifar grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann lýsir samskiptum sínum við yfirstjórn ríkisútvarpsins (RÚV) vegna þess að Einar sem er hæstaréttarlögmaður og löggiltur endurskoðandi telur að Helgi Seljan, umsjónarmaður Kastljóss, hafi gerst sekur um lögbrot 19. október 2016, 10 dögum fyrir alþingiskosningar, þegar hann notaði Kastljós til að kasta ranglega rýrð á tvo fyrrverandi formenn og forsætisráðherra Sjálfstæðisflokksins í tengslum við sölu Seðlabanka Íslands á eignarhlut sínum í FIH bankanum í Danmörku sem fram fór án afskipta formannanna fyrrverandi og alfarið á ábyrgð stjórnenda seðlabankans.

Einar segir eftir að hafa lýst framgöngu seðlabankamanna við söluna á FIH-bankanum:

„ Sveitamaðurinn hafði sem sé verið plataður við sölusamningsgerðina. – Hverjir komu að henni? Ekki fyrrverandi formenn Sjálfstæðisflokksins, svo mikið er víst.

Það er sem sé ósatt að halda því fram að lán Seðlabankans til Kaupþings hafi ekki fengist endurgreitt af völdum þessara tveggja fyrrverandi formanna. Frásögnin var viljandi einfölduð og úr er sleppt hreinum aðalatriðum. Þannig fæst sú mynd dregin upp sem hentar pólitískri sýn Helga Seljan og margendurteknum pólitískum áróðri. Helgi hafði engar nýjar upplýsingar fram að færa um lánið sem hann vildi koma á framfæri í fréttinni. Við því er ekkert að segja að Helgi Seljan sé andstæðingur Sjálfstæðisflokksins og láti það uppskátt.“

Einar lýsir lögum og reglum um RÚV sem hann telur að Helgi Seljan hafi brotið og síðan segir hann hvernig allir sem bera ábyrgð á starfi Helga skjóta sér undan að taka á málinu.

Að kvartað sé undan stjórnleysi á starfsmönnum RÚV er ekkert nýmæli. Ég kynntist slíkum kvörtunum sem menntamálaráðherra. Sjálfur var ég þá og er enn mjög gagnrýninn á hvernig RÚV tekur á ýmsum málum. Ég leit þannig á að menntamálaráðherra hefði í raun ekkert svigrúm til að skipta sér af innri málum ríkisútvarpsins með stjórnsýsluaðgerðum, hann mætti hins vegar og ætti segja sína skoðun og gerði ég það oft. 

Sama dag og Einar birtir grein sína er mikið veður gert út af því að Ástráður Haraldsson lögmaður ætlar að fara í mál við dómsmálaráðherra og ríkið vegna þess að hann fékk ekki dómarastöðu í landsrétti. Ástráður fjallar þarna um eigin hagsmuni sína og lýsir því meðal annars að hann muni örugglega vinna mál sitt fyrir dómstólum af því að hann sé sérfræðingur í valdníðslu. Fékk Ástráður rými í RÚV-þætti til að reifa mál sitt.

Einar S. Hálfdánarson er lögmaður eins og Ástráður og segir: „Ég tel einsýnt að Helgi Seljan hafi brotið gegn lögum um Ríkisútvarpið í framangreindum og raunar fleiri efnum.“ Einar segist ekki hafa haft erindi sem erfiði með því að fara stjórnsýsluleiðina. Hafi hann tæmt þá leið getur hann kvartað til umboðsmanns alþingis. 

Ef Einar S. Hálfdánarson ákvæði að fara í mál við RÚV og Helga Seljan vegna brota á lögum um ríkisútvarpið fengi hann jafnmikla athygli og Ástráður Haraldsson? 

Það skal dregið í efa. Innan RÚV segjast menn starfa „faglega“ og hefur tekist að skapa skjól gagnvart öllum sem gagnrýna þá. Miðlinum er óspart beitt telji starfsmenn hans að sér vegið. Stjórn RÚV ohf. lítur á sig sem varðmann félagsins út á við en ekki fulltrúa þeirra sem skyldaðir eru lögum samkvæmt að greiða til hennar.

Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri ritar einnig grein í Morgunblaðið í dag í anda sjálfsánægjunnar sem einkennir RÚV eins og sést á þessum orðum: „Staða RÚV er sterk, áhorf og hlustun er góð og viðhorfskannanir benda til meiri ánægju almennings með þjónustu RÚV en áður hefur mælst.“

Þetta er viðhorfið sem mætir gagnrýnendum RÚV. Útvarpsstjóri segir: „Nýtt, nútímalegt fréttastúdíó gerir fréttaþjónustu snarpari og vikulegur fréttaskýringaþáttur hefur göngu sína haustið 2017. Þetta er í takt við aukna áherslu á snarpa og hraða fréttaþjónustu í bland við dýpri rýni sem krefst tíma og þolinmæði.“

Athygli vekur að orðið „snarpur“ kemur þarna fyrir tvisvar sinnum. Það er einmitt fréttamennska í þeim dúr sem Einar S. Hálfdánarson gagnrýnir – að ekki sé farið að lögum og reglum sem um RÚV gilda. 

Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur sætt gagnrýni frá ræðukonungi alþingis, Kolbeini Óttarssyni Proppé (VG), fyrir að svara ekki spurningum hans um verktakagreiðslur RÚV. Hvernig væri að RÚV sýndi snerpu og svaraði þegar spurt er um efnistök og starfsmannahald? Hvað ætli hefðu verið margir snarpir þættir í Kastljósi um opinbert fyrirtæki sem starfaði eins og RÚV?