7.3.2018 10:48

Logi vildi koma höggi á VG

Þótt Jóhanna og Logi létu á landsfundinum eins og þau bæru sérstaka umhyggju fyrir VG líta þau á flokkinn sem helsta keppinaut sinn.

Af ræðum Jóhönnu Sigurðardóttur og Loga Einarssonar, forystumanna Samfylkingarinnar, á landsfundi flokksins um liðna helgi mátti ætla að þau bæru sérstaka umhyggju fyrir Vinstri grænum. Jóhanna taldi litlar líkur á að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur sæti út kjörtímabilið. Vildi Jóhanna að þingmenn Samfylkingarinnar beindu spjótum sínum í meira mæli að Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum en minna að Vinstri grænum „þótt þeir hafi villst tímabundið af leið.“

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. Myndin er af mbl.is

Logi tók undir með Jóhönnu. Rétt væri að flokkurinn beindi spjótum sínum meira að raunverulegum óvini sínum í stjórnmálum og héldi dyrunum áfram opnum fyrir Vinstri grænum. „Þegar Vinstri græn átta sig á því hvaða asnaskap þau leiddust út í,“ sagði hann.

Logi var ekki fyrr kominn út af landsfundinum en hann tók höndum saman við Pírata til að koma höggi á Vinstri græna með því að flytja vantraust á Sigríði Á. Andersen. Loga var jafnljóst og öðrum að honum tækist ekki að sprengja stjórnarsamstarfið með því að flytja vantrauststillöguna. Tilgangurinn var sá að kljúfa Vinstri græna af því að Logi vissi að tveir þingmenn flokksins, Rósa Björk og Andrés Ingi, mundu ekki greiða atkvæði með stjórnarflokkunum í málinu.

Þetta sjónarspil er allt í anda stjórnarháttanna sem Jóhanna Sigurðardóttir stundaði þegar hún krafðist þess að Steingrímur J. kúventi í ESB-málinu til að verða fjármálaráðherra. Smátt og smátt kvarnaðist úr þingflokki VG og að lokum reiddi Jóhanna sig á Þór Saari og Birgittu Jónsdóttur sem breyttist í Pírata þegar hún fékk ekki leyfi Þórs og Margrétar Tryggvadóttur til að sækja allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna.

Nú hafa Logi og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir Pírati sameinast sem forystuafl stjórnarandstöðunnar og Sigmundur Davíð, Þorgerður Katrín og Inga Sæland láta þau leiða sig í leðjuslaginn. Þetta lið getur reitt sig á Rósu Björk og Andrés Inga úr VG þegar í harðbakka slær.

Lítilmótlegust er afstaða Viðreisnar en vegna kröfu frá þingmönnum hennar um jafnræði milli kynja við skipun dómara í landsrétt ákvað Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra að nýta sér réttinn til að gera sjálfstæða tillögu um skipan dómara í réttinn.

Þótt Jóhanna og Logi létu á landsfundinum eins og þau bæru sérstaka umhyggju fyrir VG líta þau á flokkinn sem helsta keppinaut sinn og sjá ofsjónum yfir að hann höfðar meira til kjósenda til vinstri en Samfylkingin. Þau vilja ekki samstarf við VG heldur flokkinn feigan.

Logi Einarsson er ekki maður ígrundaðs málflutnings eða rökstuddra ákvarðana í stjórnmálum eins og vantrauststillagan og upphlaup hans gegn Bjarna Benediktssyni vegna vopnaflutningamálsins hafa nýlega sýnt. Líklega ofmetnaðist hann vegna einróma stuðnings á landsfundi flokksins. Logi minnir á Martin Schulz, leiðtog þýskra jafnaðarmanna, sem á einu ári féll úr hæstu hæðum og hrökklaðist til hliðar í þýskum stjórnmálum, ekki síst vegna ofmetnaðar.