2.3.2018 10:55

Logi í keppninni um að særa og móðga

Auðvitað vissi Logi Einarsson betur þegar hann hóf spunann í ræðustólnum. Honum er hins vegar alveg sama um hvað er satt eða rétt í þessu máli.

Smári McCarthy, þingmaður Pírata, flokksins sem vill hafa allt uppi á borðum, skýrði frá því á rás 2 í morgun (2. mars) að hann hefði, vegna fyrra starfs síns, fyrir þingmennsku haustið 2016, vitað að Air Atlanta flytti hergögn „frá Belgrad, Bratislava og fleiri borgum í Austur-Evrópu til Sádi-Arabíu“. Smári sagði: „Í einu farmbréfi sem ég hef undir höndum sem tengist flugi með íslensku flugfélagi, voru fleiri þúsund jarðsprengjur, skotfæri – mig minnir 700.000 skot – og ýmislegt fleira.“

Tilefni þess að Smári rýfur þögn sína um þetta núna eru upplýsingar sem birtust í sjónvarpsþættinum Kveikur þriðjudaginn 27. febrúar um vopnaflutninga Air Atlanta. Hvers vegna þagði Smári? Skyldi Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, spyrja hann að því?

Logi „fór af hjörunum“ í ræðustól þingsins fimmtudaginn 1. mars með árásum á Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, vegna leyndarhyggju og dylgjum um að hann sem fjármálaráðherra og fyrrverandi forsætisráðherra hefði gerst sekur um „æpandi þögn“ um vopnamálið. Hvað segir Logi um Smára?

Logi sagði:

„Þögn segir oft mikið meira en orð. Hún er orðin æpandi, þögn formanns Sjálfstæðisflokksins, valdamesta flokks landsins, í stórum, alvarlegum og umdeildum málum.“

Spurningar Loga (undir dagskrárliðnum óundirbúnar fyrirspurnir) voru síðan um það hvers vegna fjármálaráðherra teldi að ekki hefði verið haft samráð við utanríkismálanefnd alþingis um málið. Smári McCarthy situr í utanríkismálanefnd þingsins. Gerði hann henni grein fyrir vitneskju sinni? Hefur hann lagt fram farmbréfið?

Málatilbúnaður formanns Samfylkingarinnar bar vott um vanstillingu. Skyldi hann þrá sjálfur sviðsljósið í stað þess að Helga Vala baði sig í því fyrir hönd Samfylkingarinnar? Eða hefur hann ákveðið að keppa við Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, þingmann Pírata, í leiknum sem hún hefur stofnað til í þingsalnum um hver særir og móðgar mest?

Í svari sínu sagði Bjarni Benediktsson meðal annars:

„Ég verð nú bara að játa að ég átta mig ekki á því hvað hv. þingmaður á við þegar hann segir að ég sem fjármálaráðherra eða eftir atvikum forsætisráðherra hafi átt að vita hvaða farmur var í einstökum flugvélum íslenskra lögaðila í útlöndum á milli landa. Hvert er hv. þingmaður eiginlega kominn? Heldur hann virkilega að fjármálaráðherrann sé að fara yfir farmskrárnar? Þetta er algerlega rakalaus áburður sem hér er færður fram. Það er augljóst að það hefur aldrei verið á mínu borði að fara yfir þau stjórnsýslulegu atriði sem þarf að gá að í þessum málum.“

Allt er þetta rétt hjá fjármálaráðherra. Auðvitað vissi Logi Einarsson betur þegar hann hóf spunann í ræðustólnum. Honum er hins vegar alveg sama um hvað er satt og rétt í þessu máli, hann fékk aðeins þá dæmalausu hugdettu að hann hefði þarna fengið vopn í hendur til að koma höggi á andstæðing – tilgangurinn helgaði meðalið.

Ástandið batnar ekki á alþingi við keppni stjórnarandstöðunnar í skítkasti. Steingrími J. Sigfússyni, forseta alþingis, var oft tíðrætt um virðingu þingsins þegar hann tók syrpurnar í stjórnarandstöðu. Honum finnst líklega í lagi að þingstörfin séu á þessu plani.