14.8.2017 9:27

Loforðasvik Dags B. í húsnæðismálum

Áformin sem Dagur B. kynnti með glærusýningu sinni í nóvember 2014 voru í samræmi við loforðin sem hann gaf í kosningabaráttunni fyrir fjórum árum. Þau eru með öðrum orðum dæmi um mestu kosningasvik sem hér þekkjast.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri kynnti 12. nóvember 2014 áætlanir um að byggja fjögur til sex þúsund nýjar íbúðir á næstu fjórum til fimm árum í Reykjavík. Hann sagði framkvæmdir við tæplega fjögur þúsund íbúðir ýmist hafnar eða þær ættu að hefjast á næstu tveimur árum. Listinn á glærum borgarstjóra var þessi:

Tæplega 480 íbúðir í Vesturbæ og Miðbæ Reykjavíkur; allt að 950 íbúðir í Vatnsmýri; tæplega 900 íbúðir í Holtum, Teigum og Laugarnesi og um 1.350 íbúðir við Elliðaárvog. Borgarstjóri sagði að fylgt yrði stefnu aðalskipulagsins um þéttingu byggðar, sem drægi úr samgöngukostnaði.

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, skrifar grein í Morgunblaðið í dag, 14. ágúst 2017, um efndir þessara áforma borgarstjórans.

Hún segir að  á fyrstu þremur árum kjörtímabilsins, sem hófst vorið 2014, hafi aðeins verið úthlutað lóðum fyrir 14 fjölbýlishús með fleiri en fimm búðum, þar af hafi lóðum fyrir átta af þessum 14 húsum verið úthlutað nú á tímabilinu mars til maí 2017. Enn sé því langt í land að þessi hús verði tilbúin enda sé ekki byrjað að byggja megnið af þeim.

Einni lóð fyrir fjölbýlishús með fleiri en fimm íbúðum var úthlutað 2014, einni slíkri lóð var úthlutað 2015, fjórum slíkum lóðum 2016 og á tímabilinu mars til maí 2017 var átta lóðum úthlutað. Í byrjun júní 2017 sagði byggingarfulltrúinn í Reykjavík í að ekki væri lokið við smíði á neinu þessara húsa.  

Áformin sem Dagur B. kynnti með glærusýningu sinni í nóvember 2014 voru í samræmi við loforðin sem hann gaf í kosningabaráttunni fyrir fjórum árum. Þau eru með öðrum orðum dæmi um mestu kosningasvik sem hér þekkjast. Svikin eru svo stór í sniðum að um þau er almennt ekki fjallað. Á Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir sérstakar þakkir skildar fyrir að halda málinu vakandi með greinum sínum.

Þeir sem ræða um húsnæðisvandann eins og hann sé hluti af  lögmáli tengdu krónunni stunda blekkingar, annaðhvort vísvitandi eða til þess að fela loforðasvik Dags B. og félaga.