8.3.2018 10:21

Línur skýrast fyrir landsfund

Bjarna hefur tekist að sigla flokknum sem stærsta stjórnmálaaflinu í landinu í gegnum brimskaflana sem gengu yfir hann eftir hrun.

Það dregur að landsfundi Sjálfstæðismanna, hann verður föstudag 16. mars til sunnudags 18. mars í Laugardalshöllinni. Þar verður að venju opið kjör um formann og varaformann flokksins auk ritara. Fulltrúar á fundinum fá kjörseðil og rita á það nafn þess sem þeir vilja að skipi þessar forystustöður.

Bjarni Benediktsson gefur kost á sér til endurkjörs sem flokksformaður. Nú eru níu ár frá því að hann var fyrst kjörinn til þess embættis eftir að Geir H. Haarde ákvað að draga sig í hlé. Ekki hefur frést af neinum öðrum sem sækist eftir formennsku í flokknum.

Bjarna hefur tekist að sigla flokknum sem stærsta stjórnmálaaflinu í landinu í gegnum brimskaflana sem gengu yfir hann eftir hrun. Það hefur tekið á og í þingflokkum annarra flokka: Viðreisn, Miðflokknum og Flokki fólksins má sjá fólk sem áður sat landsfundi Sjálfstæðismanna.

Engin einhlít skýring er á að smáflokkar draga til sín fyrrverandi landsfundarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Ber að líta til mannlega þáttarins, einfalda leið til framboðs? Eða almennt stjórnmálaþróunar þar sem hollusta við meginstefnur hefur vikið fyrir baráttu fyrir sérmálum eða sérhagsmunum? Hugsjónabarátta er ekki háð á sama hátt og áður. Hver hefði til dæmis spáð því að forseti Bandaríkjanna, milljarðamæringur kjörinn af repúblíkönum, berðist fyrir upptöku viðskiptahafta?

Stjórnmálabarátta er háð á allt annan veg en áður með tilkomu fjölbreyttari leiða til áhrifamikillar miðlunar upplýsinga og skoðana. Íslenskir stjórnmálaflokkar nýta sér ekki þessa miðla á nægilega skipulegan hátt. Þeir verða að slípa stefnu sína og markmið meira en orðið er til að þessir þættir nái í gegn á nýjum miðlum.

Stjórnmálamenn sem lenda í átökum verða einnig sjálfir að ganga fram fyrir skjöldu sér til varnar og leggja málsvörum í netheimum til nýtilegan efnivið. Þetta krefst vinnu, þrotlausrar vinnu.

Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fyrsti þingmaður í norðvesturkjördæmi, nýtir sér Facebook á þann hátt að eftir er tekið. Í gærkvöldi (7. mars) sagði hann til dæmis þar:

„Ég fékk áskorun um að gefa kost á mér í varaformannskjöri á landsfundi. Hafði aldrei hugleitt það. Þá hafði enginn opinberlega gefið í skyn áhuga á því trúnaðarstarfi.

Fann fyrir góðum og breiðum stuðningi - sem kom reyndar þægilega á óvart en þykir vænt um. Tek ég það sem viðurkenningu fyrir störf mín. Takk fyrir það allt saman.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir steig síðan fram og lýsti yfir sínu framboði.

Ég hef sagt það vera taktlaust að miðaldra karl færi að keppa um slíkt við konu, sem er þar að auki vinur og félagi úr sama kjördæmi. Einstakling sem hefur alla burði til að vera framtíðarleiðtogi Sjálfstæðisflokksins, ef þannig vindur fram.“

Haraldur minnir á að hann lagði til við formann flokksins í janúar 2017 að Þórdís Kolbrún yrði ráðherraefni þótt hún væri á eftir sér á lista. Haraldur segir:

„Það er ekki flókið fyrir mig að lýsa enn og aftur yfir stuðningi við Þórdisi - nú til varaformennsku.

Tíminn leiðir svo í ljós hver niðurstaðan verður og ekki síst mín framtið - en mörg verkefni bíða.“

Þetta auðveldar okkur mörgum að skrifa rétta nafnið á kjörseðilinn um varaformanninn á landsfundinum.