7.9.2017 10:54

Líkur á að orkuveituhúsið hafi verið selt til málamynda

Lífeyrissjóðir stofnuðu Foss fasteignafélag haustið 2013 til þess að kaupa orkuveituhúsið á 5,1 milljarð. Eina starfsemi félagsins og hún var framseld til Straums.

Í samtali mínu við Sveinbjörgu Birnu Sveinbjörnsdóttur borgarfulltrúa á ÍNN miðvikudaginn 6. september segir hún að sérstaklega verði að skoða hvernig staðið var að sölu orkuveituhússins til Foss fasteignafélags í október 2013 fyrir 5,1 milljarð króna. 

Hér má sjá samtalið: 

Samþykktir Foss fasteignafélags eru dagsettar 28. október 2013, þremur dögum eftir að samningurinn við Orkuveitu Reykjavíkur var gerður og í lýsingu á félaginu segir: „Eina starfsemi félagsins er að eiga og reka fasteignir að Bæjarhálsi 1, 110 Reykjavík.“

Orkuveituhúsið, alls 22.630,2 fermetrar, er að Bæjarhálsi 1. Þá segir einnig í lýsingunni á Fossi fasteignafélagi að daglegum rekstri þess hafi „verið útvistað til Straums fjárfestingabanka samkvæmt samningi um umsjón með daglegum rekstri Foss Fasteignafélags. Orkuveita Reykjavíkur sf. (hér eftir „OR“ eða „leigutaki“) leigir allar fasteignir Foss Fasteignafélags, og notar undir starfsemi sína og skrifstofur, en framleigir hluta rýmisins út til þriðja aðila.“

Eigendur Foss fasteignafélags eru: Lífeyrissj.starfsm.rík. A-deild, Festa - lífeyrissjóður, Straumur fjárfestingabanki hf.,Sameinaði lífeyrissjóðurinn, Lífeyrissjóður Vestmannaeyja, Stafir lífeyrissjóður, Almenni lífeyrissjóðurinn, Lífeyrissjóður starfsmanna Reykjavíkurborgar, Lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga, Lífeyrissjóður verkfræðinga.

Allt hnígur til þeirrar áttar sem Sveinbjörg Birna nefndi í samtali okkar að kaupsamningurinn sé í raun málamyndagerningur til að tryggja OR fé umfram það sem fyrirtækið gat fengið að láni til að framkvæma „planið“ um fjárhagslega endurskipulagningu. Eðli þessa samnings og tildrög hans hljóta þeir að skoða sem fengnir verða til úttektar á öllu sem varðar þessar umdeildu höfuðstöðvar OR sem nú eru ekki nýttar nema að hluta vegna myglusvepps.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir í Fréttablaðinu í morgun (7. september): „Það er alger samstaða um það í borgarstjórn að komast til botns í þessu máli og rannsaka það til hlítar.“

Í blaðinu segir einnig:

„En er ekki sjálfsagt að skoða hina pólitísku ábyrgð líka?

„Jú, það er eitt af því sem verður skoðað í úttektinni,“ segir Dagur. „Og ef það er eitthvað sem dómkvaddur matsmaður fjallar ekki um munum við gera sérstaka úttekt. Ég mun einfaldlega tryggja að það verði komist til botns í því.“

Þess má sjá merki á samfélagssíðum og blaðagreinum að talsmenn Dags B. telja ómaklega að honum vegið að minna á stuðning hans við stefnuna sem birtist steinsteypt í orkuveituhúsinu. Þótt hann hafi ekki setið í borgarstjórn 1999 og 2000 þegar ákveðið var að sameina alla starfsemi orkufyrirtækja borgarinnar í einu húsi beit hann í skjaldarrendurnar eftir kosningarnar vorið 2002 þegar að því kom að verja monthúsið og hvernig að byggingu þess var staðið.

Dagur B. var formaður borgarráðs og hægri hönd Jóns Gnarrs borgarstjóra þegar kaupsamningurinn var gerður við Foss fasteignafélag. Haustið 2013 lá mikið við að búa sem best í haginn vegna borgarstjórnarkosninganna 2014 þar sem helsta rósin í hnappi Dags B. og félaga var hve faglega hefði verið staðið að endurreisn á rekstri OR.

Nú taka þeir til við að búa sig undir kosningarnar 2018. Eins og þeir afsaka sig nú með að Samfylkingin hafi ekki verið til fyrr en árið 2000 og þess vegna sé hún laus allra mála vegna ákvarðana um orkuveituhúsið geta þeir að þessu sinni sagt að Samfylkingin sé ekki lengur við lýði og þess vegna séu þeir lausir allra mála. Þannig er lógík samfóista um verk sín.