28.12.2017 9:58

Krafan um regluvæðingu stjórnmálaumræðna

Boðskapur Gunnars er í ætt við kröfurnar um að innan háskóla verði til „örugg svæði“ þar sem námsmenn þurfi ekki að hlusta á „óþægilegar“ skoðanir eða horfa á myndastyttur sem minna þá á afstöðu fyrri tíma manna.

Regluvæðing og eftirlitshugsun á ríkan hljómgrunn af því að menn telja að með reglum og opinberu eftirliti geti þeir skapað sér og öðrum „öruggt svæði“. Þetta er vissulega rétt á mörgum sviðum, til dæmis í umferðinni. Það tók nokkurn tíma og þunga í kynningu, meðal annars í fréttaflutningi Ómars Ragnarssonar, að sannfæra okkur Íslendinga um nauðsyn þess að nota bílbelti.

Eftir að það tókst og alvarlegum slysum fækkaði vegna notkunar beltanna hefur nýr hópur fólks bæst á vegi landsins sem hefur ekki fengið sömu fræðslu um gildi bílbelta. Við þeim sem komu að alvarlega rútuslysinu í Eldhrauni miðvikudaginn 27. desember blasti að kínversku farþegarnir sátu ekki í bílbeltum. Kínverjar spenna víst almennt ekki á sig bílbelti í einkabílum hvað þá heldur í hópferðabílum. Nýs átaks er greinilega þörf til að minna hér á reglur og tryggja að eftir þeim sé farið.

RHODES-master768Þegar grannt er skoðað sést að sett hefur verið vírnet um þessa styttu af 19. aldar manninum Cecil John Rhodes á vegg Oriel-háskólans í Oxford þar sem hann stundaði nám á sínum tíma. Rhodes lagði grunn að De Beer demantafyrirtækinu í Suður-Afríku og er tákngervingur breskra nýlenduherra. Eftir að stytta af honum var fjarlægð af lóð háskólans í Höfðaborg var krafist að sama yrði gert í Oxford. Kröfunni var hafnað í lok janúar 2016.

Regluvæðingin og eftirlitsþráin fer stundum út í öfgar. Nú stefnir í að það kunni að gerast vegna krafna um að settar verði hömlur á það sem kallað er „aðkoma þriðja aðila að kosningabaráttu“. Gunnar Svavarsson, verkfræðingur og fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, ritar grein um þetta „vandamál“ í Morgunblaðið í dag (28. desember).

Þessir „þriðju aðilar“ eru „óumbeðið á markaðnum“ það er í stjórnmálabaráttu en „ekki skilgreindir sem stjórnmálaflokkur“.  Það séu aðeins „stjórnmálaöflin“ sem megi koma að kosningabaráttu. Krafa Gunnars og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar, er að komið verði lögum yfir þessa aðila. Segir Gunnar að þetta snúist um „fármögnun kosningaauglýsinga“ og sé það „ríkur vilji“ Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra „að vinna málið í þverpólitískri samstöðu“ með aðkomu ríkisendurskoðunar.

Gunnar Svavarsson segir: „Kosningaáróður frá ónafngreindum eða óþekktum hópum eða einstaklingum flýtur yfir netheima í formi keyptra og ókeyptra auglýsinga, jafnvel á öldum ljósvakans og er þá enginn miðill undanskilinn.“ Hann segir þetta koma „frá stuðningshópum eða einstaka Sköftum“. Þarna vísar hann vafalaust til Skafta Harðarsonar, formanns Samtaka skattgreiðenda, sem halda meðal annars úti vefsíðu  „Eiga stuðningsmenn eða Skaptar heimsins að geta komið fram með hvað sem er, óhikað, á netmiðlum og í fjölmiðlum?“ spyr Gunnar.

Við lestur á lýsingum Gunnars á hættunum sem hann telur steðja að lýðræðinu af því að einstaklingar og samtök þeirra kynni skoðanir sínar í kosningabaráttu vaknar spurning um hvort úrræðin sem hann boðar með nýrri regluvæðingu eru ekki hættulegri lýðræðinu en kynningarstarf utan ramma stjórnmálaflokkanna. Athyglisvert er að hann minnist ekki á undirróður af hálfu erlendra aðila. Ætti þó að vera brýnna að hindra íhlutun þeirra í kosningabaráttu hér en að þagga niður í innlendum aðilum sem vilja minna á baráttumál sín, til dæmis Öryrkjabandalaginu að Félagi eldri borgara.

Boðskapur Gunnars er í ætt við kröfurnar um að innan háskóla verði til „örugg svæði“ þar sem námsmenn þurfi ekki að hlusta á „óþægilegar“ skoðanir eða horfa á myndastyttur sem minna þá á afstöðu fyrri tíma manna.

Af grein Gunnars verður ráðið að í bígerð sé að taka upp ritskoðun fyrir kosningar á vegum ríkisendurskoðunar til að hefta málfrelsi „óumbeðinna“ þriðju aðila. Það er ekki langt í aðferð Pútíns að láta yfirkjörstjórn lýsa þá ókjörgenga sem eru honum hættulegastir.