12.10.2018 10:38

Jón Ásgeir, SME og Gunnar Smári anno 2018

Tölvubréf Jóns Ásgeirs segja mikla sögu og sýna andrúmsloftið í fyrirtækjum hans. Hann notaði orðbragð og beitti hótunum til að skara eld að eigin köku.

Fyrir þá sem muna ekki gauraganginn í Jóni Ásgeiri Jóhannessyni á árunum 2002 til 2008 þegar Baugsmálið var til rannsóknar og hann beitti öllum ráðum til að dreifa athygli frá ákærum á hendur sér er fróðlegt að lesa yfirlýsinguna frá Jóni Ásgeiri í vikunni þar sem hann réðst á Davíð Oddsson og Morgunblaðið fyrir að birta tölvubréf sem sýndu tök Jóns Ásgeirs á stjórnendum bankans Glitni fyrir hrun.

Tölvubréf Jóns Ásgeirs segja mikla sögu og sýna andrúmsloftið í fyrirtækjum hans. Hann notaði orðbragð og beitti hótunum til að skara eld að eigin köku. Bréfin sýna einnig að Pálma Haraldssyni, viðskiptafélaga Jóns Ásgeirs, kom á óvart að milljarður sem hann lét Jóni Ásgeiri í té skyldi notaður á þann veg sem lýst er.

3917ff78-2bd1-448e-b73f-9ce0e13c742bMeð tilstyrk Jóns Ásgeirs stóð Gunnar Smári að baki útgáfu fríblaðsins Nyhedsavisen í Danmörku. Útgáfunni var hætt vegna gjaldþrots.

Hrokafull yfirlýsing Jóns Ásgeirs vekur ekki ein minningu um Baugsmálið heldur einnig að Sigurjón Magnús Egilsson (SME), bróðir sósíalistaforingjans Gunnars Smára, skuli taka málstað Jóns Ásgeirs. Það gerðu þeir bræður á tíma Baugsmálsins og héldu málstað Baugsmanna fram af þunga auk þess sem Gunnar Smári fékk marga milljarða fyrir tilstilli Jóns Ásgeirs til misheppnaðra fjárfestinga erlendis. Eftir hrunið rifust þeir Jón Ásgeir og Gunnar Smári um hve margir tugir milljarða hefðu farið súginn vegna samstarfs þeirra. SME er nýfluttur til Spánar og boðar að fyrir utan stuðning við sósíalista ætli hann að skrifa um golf á vefsíðu sína.

Jón Ásgeir rekur enn Fréttablaðið sem hann keypti með leynd af Gunnari Smára fyrir 16 árum. Gunnar Smári hefur víða leitað fyrir sér undanfarin 10 ár, meðal annars á Fréttatímanum sem hann kollsigldi og yfirgaf gjaldþrota. Eftir það sneri hann sér að sósíalisma og stofnaði stjórnmálaflokk. Hann hefur tögl og hagldir í Eflingu-stéttarfélagi eftir að Sólveig Anna Jónsdóttir og Viðar Þorsteinsson komust þar til valda. Þau hafa gripið til hreinsana á skrifstofu Eflingar og sent fjármálastjóra og bókara félagsins í veikindaleyfi vegna þess að gæta átti formreglna við greiðslu á milljón krónu reikningi til eiginkonu Gunnars Smára fyrir ljósmyndir, fimmtu milljónina á fimm mánuðum frá því að skipt var um stjórn í Eflingu.

Þegar frétt birtist um þetta í Morgunblaðinu umturnaðist Gunnar Smári af bræði og jós svívirðingum yfir fjármálastjórann. Sólveig Anna og Viðar sendu hins vegar frá sér tilkynningu án þess að segja alla söguna og þau hafa ekki tekið upp hanskann fyrir fráfarandi fjármálastjóra Eflingar vegna svívirðinga Gunnars Smára.

Í Morgunblaðinu í morgun (12. október) segir að Sólveig Anna og Viðar hafi sætt harðri gagnrýni á fundi með starfsfólki Eflingar fyrir að gagnrýna ekki Gunnar Smára og standa með fjármálastjóranum.

Gunnar Smári vinnur nú fyrir Samtök leigjenda og leitar uppi leigjendur í vandræðum til að kynna á samfélagsmiðlum. Þetta er svipað verkefni og eiginkona hans sinnir fyrir Eflingu þó með öfugum formerkjum því eftir að Sólveig Anna komst þar til valda ljóma allir félagsmenn af ánægju.