31.5.2018 11:05

Jan Kabat-Zinn hugleiðir í Hörpu

Jon Kabat-Zinn á ómældar þakkir fyrir að hafa beitt klínískum aðferðum til að sanna gildi hugleiðslu.

Hugleiðsla er nú gjarnan kölluð núvitund á íslensku. Núvitund (einnig gjörhygli) er þýðing á mindfulness sem er kennd við Jon Kabat-Zinn (f. 1944), fyrrv. prófessor í læknisfræði við Massachusetts-háskóla. Hann kynnti núvitund til sögunnar á áttunda áratugnum eftir klínískar rannsóknir sem tengdust langveikum og þeim sem þjást af miklum verkjum.

Kabat-Zinn lærði á sínum tíma hugleiðslu hjá búddameistaranum Thich Nhat Hanh og zenmeistaranum Seung Sahn. Nýtti hann sér þá þekkingu við klínískar rannsóknir sínar og  þróun hugleiðslukerfisins minnkun álags með vakandi vitund (mindfulness-based stress reduction (MBSR)).

Hér á landi hefur aðferð Kabat-Zinns verið notuð á Landspítalanum og hjúkrunarfæðingar hafa beitt sér fyrir skipulegum umræðum um gildi hennar innan heilbrigðiskerfisins. Núvitund hefur einnig verið kynnt innan skólakerfisins.

Sannað hefur verið að á þessum tveimur sviðum samfélagsins, grunnþáttum velferðarkerfisins, er unnt að ná mælanlegum árangri og auka vellíðan með hugleiðslu.  

Jon Kabat-Zinn hannaði átta vikna ferli til að tileinka sér hugleiðslu með núvitundar-aðferð og hann kynnir það nú þessa daga á námskeiði sem stofnað er til í Hörpu af landlæknisembættinu og Núvitundarsetrinu. Í kynningu á vefsíðu landlæknis segir:

„Koma hans [Kabat-Zinns] er liður í samfélagslega verkefninu, Lýðheilsustefnu Íslendinga, sem m.a. felst í að innleiða núvitund og stuðla að vitundarvakningu fyrir bættu geðheilbrigði og vellíðan um allt samfélagið.“

Þetta er virðingarvert og tímabært framtak sem vonandi verður til þess að auka skilning innan velferðarkerfisins á gildi þess að lögð sé rækt við viðurkenndar aðferðir við hugleiðslu en þær eru ævafornar og fáar hafa verið meira rannsakaðar en qi gong, kínversku lífsorkuæfingarnar sem hópur fólks hefur stundað hér árum saman. Til dæmis þróaði Gunnar heitinn Eyjólfsson leikari 40 mínúta æfingakerfi sem kennt er við hann, Gunnarsæfingarnar, og má kynnast þeim í samnefndri bók.

Prófessor Mark Williams, klínískur sálfræðingur við Oxford-háskóla, hefur haldið áfram rannsóknum í anda Kabat-Zinns og ásamt öðrum skrifað metsölubókina Mindfulness: Finding Peace in a Frantic World. Þar er að finna nákvæmar lýsingar á núvitundar-æfingakerfinu. Eftir Williams er haft:

„Núvitund kennir manni að takast á við óhamingju og tilfinningalegt álag eins og um sé að ræða svört ský á himni semi líði á brott. Hún gerir manni fært að ná tangarhaldi á neikvæðum hugsunum áður en þær draga mann niður með sér.

Með því að hugleiða aðeins 10 til 20 mínútur á dag með aðferðum núvitundar er unnt að bæta andlega og líkamlega líðan verulega.“

Ein af Gunnarsæfingunum snýst einmitt um að sprengja á brott svörtu skýin og önnur um að mála ekki skrattann á vegginn. Þetta eru qigong-æfingar til að ná tökum á neikvæðum hugsunum og ýta á brott kvíða.

Í þýska vikublaðinu Der Spiegel sagði 18. maí 2013:

„Hugleiðsla er eins og æskubrunnur fyrir heilann. Hún fjölgar gráu heilasellunum sem skipta miklu fyrir athygli, einbeitingu og minni. Á þennan hátt stuðlar hún að því að blása lífi í kulnaða hluta líkamans. Hún hefur ekki aðeins áhrif á heilann heldur einnig á grunnstoðir líkamans: Ónæmiskerfið virkar betur, blóðþrýstingur lækkar og virkni hvata (enzýma) eykst.“

Jon Kabat-Zinn á ómældar þakkir fyrir að hafa beitt klínískum aðferðum til að sanna gildi hugleiðslu. Á hinn bóginn er ekki nauðsynlegt að læra nútvitundar-kerfið til að njóta áhrifa hugleiðslunnar. Fyrst og síðast þarf að gefa sér tíma til að stunda hana.