10.4.2017 13:38

Ísland var aldrei dönsk nýlenda

Nefnd undir formennsku Einars K. Guðfinnssonar, fyrrv. forseta alþingis, undirbýr afmælisviðburði vegna 100 ára afmælis fullveldis árið 2018. Gott er að minnast þess í öllum undirbúningnum að Ísland var aldrei dönsk nýlenda.

Nú er hafinn undirbúningur að því að minnast 100 ára fullveldis Íslands. Sá merki atburður í þjóðarsögunni varð 1. desember 1918. Nefnd undir formennsku Einars K. Guðfinnssonar, fyrrv. forseta alþingis, undirbýr afmælisviðburði. Gott er að minnast þess í öllum undirbúningnum að Ísland var aldrei dönsk nýlenda.

Þessi staða Íslands innan danska ríkisins er enn einu staðfest í miklu ritverki sem nýlega kom út hjá Gads Forlag í Danmörku, fimm binda verki sem heitir Danmark og kolonierne. Heiti bindanna fimm sem hvert er um 400 bls. eru: Vestafrika – Forterne på Guldkysten (ritstjórn Per Olof Hernæs); Vestindien – St. Croix, St. Thomas, St. Jan (ritstjórn Poul Erik Olsen); Grønland – den arktiske koloni (ritstjórn Hans Christian Gulløv); Indien – Tranquebar, Serampore og Nicobarerne (ritstjórn Niels Brimnes); Danmark – en kolonimagt (ritstjórn Mikkel Venborg Pedersen)

Flemming Østergaard skrifar lofsamlega umsögn um bækurnar í Jyllands-Posten mánudaginn 10. apríl „de fem bind, der kan læses samlet eller hver for sig, står nu suverænt som hovedværket om vore koloniale besiddelser,“ segir hann.

Eins og sést á heiti bókanna er Grænland talin nýlenda en hvorki Ísland né Færeyjar. Staða Grænlands sem nýlendu að mati danskra fræðimanna hefur oft vakið ákafar deilur.

Aðalritstjórn bókanna skýrir í formála hvað ræður skilgreiningu á löndum sem nýlendu. Hún notaði fjögur atriði til skilgreiningar: tíma, landafræði, stjórnsýslu og stjórnmál, efnistök.

Á grundvelli þessa útiloka þessi fjögur skilgreiningaratriði að litið sé á Ísland og Færeyjar sem nýlendur. Skilið er á milli gömlu norrænu skattlandanna Íslands og Færeyja annars vegar og Grænlands hins vegar sem er skilgreint sem nýlenda. Þótt oft hafi verið komið fram við Íslendinga eins og nýlenduþjóð segir ritstjórnin að land þeirra hafi fallið undir Noreg og síðan Danmörku sem hluti Noregs áður en evrópska nýlendubylgjan hófst með landafundasiglingunum á 15. öld auk þess sem ekki sé munur á Íslendingum og Norðmönnum og Dönum. Stöðu Grænlands sem nýlendu megi rekja til þess að í lok 17. aldar hafi verið um raunveruleg nýlendutengsl að ræða og að litið var á Grænlendinga sem annan kynþátt með aðra menningu en Dana og Norðmanna.

Í Jyllands-Posten er minnt á að 1905 hafi Íslendingar mótmælt harðlega að vera flokkaðir með dönskum nýlenduþjóðum á sýningu á menningu þeirra sem efnt var til í Tívolí í Kaupmannahöfn.