1.1.2018 11:22

Innblástur að utan - gleðilegt ár!

Þegar litið er fram á veg og til viðfangsefna sem við þjóðum blasa við upphaf nýs árs er vandinn vegna útlendingamála mörgum ofarlega í huga.

Gleðilegt ár!

IMG_4982

Þegar litið er fram á veg og til viðfangsefna sem við þjóðum blasa við upphaf nýs árs er vandinn vegna útlendingamála mörgum ofarlega í huga. Margrét Danadrottning vék að honum á ígrundaðan hátt í nýársávarpi til þjóðar sinnar á gamlárskvöld og sagði meðal annars:

„Þegar litið fram á veginn höfum við þörf á kröftum allra, já, fleiri en við erum sjálf. Í sögu okkar höfum við leitað eftir duglegum höndum og snjöllum heilum frá öðrum löndum. Margir hafa komið til Danmerkur til að vinna hér, við höfðum áður þörf fyrir þá og við höfum það enn! Þeir vinna við landbúnað, á hótelum og veitingastöðum eða eru mjög sérhæfðir vísindamenn sem miðla af þekkingu sinni.

Þetta snýst ekki aðeins um skort á vinnuafli. Við þörfnumst einnig hugmynda og innblásturs að utan til að geta varðveitt þá góðu stöðu sem Danmörk hefur náð á mörgum sviðum, eins og okkur hefur sjálfum tekist að hvetja aðra til dáða utan lands okkar.“

Margrét Danadrottning flytur 46. nýársávarp sitt frá höll Kristjáns IX. í Amalienborg í Kaupmannahöfn.

Danir eru að mörgu leyti fyrirmynd þeirra innan Evrópusambandsins sem vilja að stjórnvöld þeirra hafi gott vald á því hverjir koma til landa þeirra. Virk varsla er á landamærum Þýskalands og Danmerkur. Boðskapur drottningarinnar fellur að þessari stefnu: Danir eiga sjálfir að ráða hverjir leggja þeim lið við að gera Danmörku betri.

Þessi boðskapur á einnig erindi til okkar Íslendinga. Sá mikli vöxtur sem hér hefur orðið á skömmum tíma á rætur að rekja til þess að leitað er eftir vinnuafli erlendis.

Nú skiptir meira máli en nokkru sinni að fylgt sé skynsamlegri stefnu í útlendingamálum á þann veg að þjóðlífið allt eflist jafnt fyrir þá sem í landinu búa og hingað koma. Hlú ber að þeim sem koma á lögmætum forsendum en halda hinum sem koma blekktir af erlendum svindlurum. Þeir sem starfa að þessum málum verða að hafa þrek til að greina þarna á milli, annars missa þeir traust og trúverðugleika.

Jafnaðarmaðurinn Magdalena Andersson, fjármálaráðherra Svíþjóðar, hvatti fyrir jólin flóttamenn til að leita til annarra landa en Svíþjóðar. „Ég tel að þetta fólk fái betri tækifæri leiti það til annars lands,“ sagði hún og einnig:

„Aðlögunin virkar ekki eins og að er stefnt. Málum var einnig þannig háttað fyrir haustið 2015 [þegar verulegur straumur farand- og flóttafólks var til Norður-Evrópu]. Í mínum huga er skýrt að við getum ekki tekið við umsóknum frá fleiri hælisleitendum en við höfum burði til að laga að samfélaginu. Annars er staðan hvorki góð fyrir fólk sem kemur hingað né fyrir samfélagið í heild.“

Innblástur að utan skiptir miklu hérlendis og hefur ávallt gert – einnig í þessum málaflokki.