5.10.2018 11:20

Í fjötrum rangrar söguskoðunar

Í krafti þessarar söguskoðunar átti að ná ýmsu fram, þrennt skal nefnt: (1) ýta Sjálfstæðisflokknum varanlega til friðar; (2) kollvarpa stjórnarskránni og (3) koma Íslandi í Evrópusambandið.

Alið hefur verið á þeirri pólitísku söguskoðun á bankahruninu í október 2008 og er jafnvel gert enn 10 árum síðar að benda megi á nokkra íslenska stjórnmálamenn og embættismenn sem ábyrgðarmenn þess.

Söguskoðunin er stutt nokkrum ákvörðunum andstæðinga Sjálfstæðisflokksins:

Eftir óeirðafund samfylkingarfólks í Þjóðleikhúskjallaranum 21. janúar 2009 ákvað óttaslegin og trausti rúin forystusveit Samfylkingarinnar að slíta stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Jóhanna Sigurðardóttir varð nýtt andlit flokksins og forsætisráðherra 1. febrúar 2009  í stjórn með Steingrími J. Sigfússyni (VG) sem harðast gekk fram í ofstæki gegn Sjálfstæðisflokknum á þingi. Gylfi Magnússon var sóttur í Háskóla Íslands og gerður að bankamálaráðherra. (Ríkisútvarpið kynnir hann nú til sögunnar sem einskonar spámann um hrunið.) Fyrsta verk þeirra var að búa til sökudólga með því að reka alla bankastjóra seðlabankans og gera Davíð Oddsson, fyrrv. formann Sjálfstæðisflokksins, að einskonar höfuðpauri hrunsins.

488330Golli tók þessa mynd fyrir mbl.is 21. janúar 2009 fyrir framan Þjóðleikhúsið en þá hittist samfylkingarfólk í kjallara þess.

Með „sorg í hjarta“ beitti Steingrímur J. sér fyrir því að Geir H. Haarde, fyrrv. formaður Sjálfstæðisflokksins, var sóttur til saka fyrir Landsdómi. Meirihluti hans sá engin merki þess að yfirvofandi bankahrun hefði verið rætt í ríkisstjórninni og taldi réttmætt að sakfella Geir H. Haarde fyrir það.

Ríkisútvarpið hefur ásamt ýmsum háskólamönnum og yfirlýstum andstæðingum Sjálfstæðisflokksins gengið hart fram við að halda lífi í þessari söguskoðun. Óttinn við að hún standist ekki birtist greinilega í viðbrögðunum undanfarna daga við skýrslu Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands eftir Hannes Hólmstein Gissurarson um erlenda áhrifaþætti á bankahrunið.

Í krafti þessarar söguskoðunar átti að ná ýmsu fram, þrennt skal nefnt: (1) ýta Sjálfstæðisflokknum varanlega til hliðar; (2) kollvarpa stjórnarskránni og (3) koma Íslandi í Evrópusambandið.

Allt hefur þetta misheppnast. Söguskoðunin er röng þótt reynt sé að halda í henni lífi. Að vera í fjötrum hennar enn 10 árum síðar ber vott um pólitíska langrækni og hömlulausa heift.