11.9.2017 8:48

Hvatt til varðstöðu gegn harðstjórn

Allt á þetta erindi til okkar Íslendinga eins og annarra þjóða sem búa við frelsi. Það er unnt að grafa undan lýðræði og frelsi hér eins og hvarvetna annars staðar.

Í bókum höfunda sem greina samtímann, þróun stjórnmála, efnahagsmála og atvinnumála er því alls staðar spáð að við stöndum á þröskuldi mikilla breytinga og þær gerist nú hraðar en nokkru sinni fyrr í mannkynssögunni.

Nú í sumar sendi Edward Luce, dálkahöfundur við The Financial Times og fréttaritari í Washington DC, frá sér bókina The Retreat of Western Liberalism ­– Undanhald vestræns frjálslyndis. Þar greinir hann strauma og stefnur austan hafs og vestan sem hann telur benda til þess að illiberal democracy „ófrjálslynt lýðræði“ sé að skjóta rótum og nefnir Rússland, Tyrkland og Ungverjaland til sögunnar í Evrópu og varar við þróun bandarískra stjórnarhátta undir forsæti Donalds Trumps.

Varnaðarorð Luce komu í hugann við lestur fastadálks Guðmundar Andra Thorssonar rithöfundar í Fréttablaðinu í morgun. Hann segir frá því að bandaríski sagnfræðingurinn Timothy Snyder hafi verið meðal gesta á nýlegri bókmenntahátíð. Snyder hafi „ritað merkar bækur um sögu Austur-Evrópu á síðustu öld og þá skelfilegu atburði sem þar dundu yfir þjóðirnar, og eru svo nærri okkur í tíma að manni rennur kalt vatn milli skinns og hörunds þegar maður hugsar út í það,“ svo að vitnað sé beint í orð Guðmundar Andra sem segir einnig frá því að nýlega hafi Snyder sent frá sér stutta hugvekju sem nefnist á ensku On Tyranny – twenty lessons from the 20th century – Um harðstjórn – tuttugu heilræði frá 20. öldinni. Hér leyfi ég mér að birta þau í þýðingu Guðmundar Andra:

„Heilræðin tuttugu eru þessi: að hlýða ekki valdboði í blindni; standa vörð um stofnanir samfélagsins; varast einsflokksræði; ekki venjast táknum á borð við hakakrossa í umhverfi sínu; halda í heiðri siðareglur stétta sinna (hvað lögfræðingar athugi); ekki umbera vopnaburð hópa; vera varkár þurfi maður að bera vopn vegna vinnu sinnar; sýna gott fordæmi; virða eigin þjóðtungu, lesa bækur, ekki hanga of mikið á netinu; trúa því sem satt er; leggjast í rannsóknir; horfa í augun á fólki og spjalla um daginn og veginn; vera til svæðis, fara á fundi og mannfagnaði, hitta fólk; eiga einkalíf; gefa til góðra málefna; ferðast til annarra landa; hlusta eftir hættulegum orðum eins og terroristi og ekki þola misbrúkun á orðum sem tjá ættjarðarást; halda ró sinni þegar hið óhugsandi gerist; vera ættjarðarvinur; vera eins hugrakkur og kostur er.“

Og Guðmundur Andri vitnar enn í Thomas Snyder sem segir: „Sé ekkert okkar reiðubúið að deyja fyrir frelsið munum við öll deyja undir harðstjórn.“

Allt á þetta erindi til okkar Íslendinga eins og annarra þjóða sem búa við frelsi. Það er unnt að grafa undan lýðræði og frelsi hér eins og hvarvetna annars staðar. Undanfarin ár hefur til dæmis verið gerð hörð aðför að stofnunum samfélagsins og þar með vegið að stoðum réttarríkisins. Í stað leikreglna sem skráðar eru í lög og framfylgt er af þeim sem ber að gera það láta margir eins og frekar eigi að láta stjórnast af tilfinningum og geðþótta vegna einstakra mála. Að verða við kröfum um slíka stjórnarhætti er áfangi á leiðinni frá frelsi til harðstjórnar sé litið til heilræða Snyders.