19.9.2018 11:06

Hóflaus þétting byggðar

Sérstaklega er þetta ömurlegt í nágrenni Alþingishússins með nýrri hótelbyggingu á hluta Víkurkirkjugarðs.

Miðborg Reykjavíkur hefur breytt um svip bæði með nýjum byggingum og mannlífi. Í Morgunblaðinu í morgun (19. sept.) er rætt við hótelhaldara við Laugaveginn sem mótmæla hugmyndum borgarstjórnar um að gera Laugaveginn að göngugötu allan ársins hring.

„Ég held að verslun sé að hverfa af Laugaveginum og lítið verði annað í boði en lundabúðirnar. Það er bara staðreynd að borgaryfirvöld hafa aldrei hlustað á okkur og sjónarmið okkar og aldrei haft neitt samráð við okkur um útfærslur. Það er eins og við skiptum engu máli,“ segir Gísli Úlfarsson stjórnandi Hótels Fróns á Laugavegi 22.

Með orðinu „lundabúðir“ vísar Gísli til verslana sem þjónusta ferðamennina sem streyma um Laugaveginn, niður Bankastrætið og um Austurstræti. Borgarbragurinn hefur tekið á sig allt aðra mynd en áður vegna fjölgunar ferðamanna. Lokun gatna fyrir bílaumferð tekur mið af þessari þróun. Raunar kemur á óvart hótelrekendur skuli mótmæla henni. Það er greinilega ekki allt sem sýnist í þessu efni.

Img_6492Myndin er tekin í sumar og stendur ljósmyndarinn fyrir framan Alþingishúsið. Framan við gamla Símahúsið á að rísa hótel sem þrengir mjög að Alþingishúsinu. Sjáið einnig ljóta steininn sem troðið hefur verið fyrir framan þinghúsið. Hann er sagður til minningar um aðförina að þinghúsinu í kringum áramótin 2018/19.

Í Fréttablaðinu í dag gerir Magnús Jónsson veðurfræðingur skipulagsmál Reykjavíkurborgar að umtalsefni og segir:

„Það sem hefur ráðið för við uppbyggingu og skipulag í höfuðborginni er að mínu mati fyrst og fremst græðgi, tillitsleysi og skammsýni yfirvalda, hönnuða og byggingarverktaka. Þá hefur sú kenning að þétting byggðar sé ávallt til góðs leikið hér stórt hlutverk. Samt hefur verið sýnt fram á að háreist þétting byggðar getur oft skapað meiri vandamál en hún á að leysa. Græðgisvæðing miðbæjar Reykjavíkur (Skuggahverfi, Lækjargata og hafnarsvæðið) svo og Grandavegar, Höfðatorgs og Kringlusvæðisins verður örugglega til að rýra lífsgæði margra sem búa fyrir í þessum hverfum. T.d. með vindstrengjum, vindgný og skuggamyndun sem og frekari aukningu á umferðaröngþveiti og rykmengun vegna aukinnar umferðar. Borgarlína í einhverri mynd eða götuþrengingar munu ekki laga það nema að litlu leyti. Þessa skipulags- og háþéttingarstefnu mætti skilja ef hér á landi væri landrýmisskortur eða hér byggju margar milljónir manna.“

Lokaorðin í tilvitnuðum texta minna á að vegið er að opnum svæðum á þann veg að byggingar sem við þau standa gjalda þess. Sérstaklega er þetta ömurlegt í nágrenni Alþingishússins með nýrri hótelbyggingu á hluta Víkurkirkjugarðs. Þá er einnig þrengt að Hörpu á þann veg að húsið nýtur sín ekki sem skyldi. Útvarpshúsið er nú umkringt því sem Magnús nefnir „fimm hæða gámastæðurnar“. Hús veðurstofunnar verður líklega lokað inni á sama hátt. Öskjuhlíðin séð frá flugvellinum verður einnig afgirt. Með byggingum þar og á Valssvæðinu er vegið að opnum svæðum og aukið á umferðarvanda.