4.5.2017 10:48

Hiti í kappræðum frönsku forsetaframbjóðendanna

Stjórnendur sjónvarpskappræðnanna voru ekki öfundsverðir í gærkvöldi. Oft töluðu allir í einu, stjórnendur og frambjóðendur.

Kappræður forsetaframbjóðendanna í seinni umferð frönsku forsetakosninganna voru í rúma tvo tíma í sjónvarpi í gærkvöldi. Þar tókust á Marine Le Pen, frambjóðandi Þjóðfylkingarinnar, og Emmanuel Macron, frambjóðandi Áfram!, flokks sem hann stofnaði, mið-vinstriflokks, í fyrra. 

Þetta er í annað sinn sem frambjóðandi Þjóðfylkingarinnar kemst í aðra umferð frönsku forsetakosninganna. Jean-Marie Le Pen, stofnanda Þjóðfylkingarinnar og föður Mariane, tókst að ná þessum árangri árið 2002 og keppti þá við Jacques Chirac sem sigraði með yfirburðum í kosningunum. Þeir tveir háðu aldrei sjónvarpseinvígi, Chirac taldi það fyrir neðan virðingu sína.

Flestir spá Macron sigri í kosningunum sunnudaginn 7. maí.

Stjórnendur sjónvarpskappræðnanna voru ekki öfundsverðir í gærkvöldi. Oft töluðu allir í einu, stjórnendur og frambjóðendur. Eitt sinn hrópaði annar stjórnandinn,

Nathalie Saint-Cricq : „Non mais arrêtez, tous les deux. Vraiment! Vraiment!“ – Nei, skulið þið bæði hætta. Í alvöru! Í alvöru!“

Marine Le Pen var jafnan með reiði- eða hæðnissvip þegar hún leit á andstæðing sinn. Fyrir henni vakti að reita andstæðing sinn til reiði segja frönsku blöðin. Henni tókst það ekki. Macron lét hins vegar þung orð falla í garð Le Pen sagði hana „sníkjudýr” á kerfinu sem hún úthúðaði.

Le Pen minnti á að Macron hefði verið ráðgjafi sósíalistans François Hollandes, óvinsælasta forseta Frakka, og kallaði hann „Hollande yngri“. Hann segðist vera frambjóðandi opinna stjórnarhátta en væri í raun frambjóðandi þeirra sem vildu loka verksmiðjum.

Macron sagði: „Segðu ekki tóma vitleysu. Þú segir ekkert nema tóma vitleysu.“

Hún sagði að Macron yrði ekki annað en þægur þjónn ESB. Þótt hún tapaði fyrir honum í kosningunum yrði Frakklandi stjórnað af konu: Angelu Merkel Þýskalandskanslara. „Þú fórst á fund til frú Merkel til að hljóta blessun hennar af því að þú ætlar ekki að gera neitt án hennar samþykkis.“

Hún sagði nauðsynlegt að Frakkar eignuðust eigin lögeyri – evran væri fyrir bankamenn en ekki almenning. Macron dró athygli að því að óljóst væri hvort Le Pen vildi segja skilið við evruna eða ekki, hún talar um samhliða myntir, evru og franka.

Macron vill halda í evruna, styrkja stöðu Frakka innan ESB og að þeir verði þar í forystu með Þjóðverjum. Hann sakaði Le Pen um að vera höll undir fyrirmæli frá Rússum. Hún sagði Frakka verða að standa jafn frjálsa af Rússum og Bandaríkjamönnum. Frakkar hefðu enga ástæðu til að vera í köldu stríði við Rússa heldur ætti þeir að eiga við þá stjórnmála- og viðskiptasamvinnu.

Talið er að á milli 15 og 16 milljónir manna hafi fylgst með kappræðunum. Skyndikönnun sýndi að um 63% áhorfenda töldu Macron hafa haft betur í viðræðunum.