2.7.2017 15:21

Helmut Kohl kvaddur

Minningarathöfnin í Strassborg var enn til marks um óbilandi trú Kohls og áhuga á samstarfi Þjóðverja og Frakka og annarra Evrópuþjóða til að tryggja frið í álfunni. 


Útför Helmuts Kohls, fyrrv. Þýskalandskanslara, fór fram í gær. Minningarathöfn var í sal ESB-þingsins í Strassborg þar sem kistan stóð fyrir framan forsetastúku salarins en í stúkunni sátu ungir hljóðfæraleikarar frá háskólanum í Strassborg og fluttu tónlist við athöfnina. Ræðupúlt var til vinstri við kistuna og þangað komum tignarmenn frá nokkrum löndum og minntust Kohls. Áhrifamest var ræða Bills Clintons, fyrrv. Bandaríkjaforseta.

Þegar gestir komu til þinghússins stóð forseti þingsins þar og tók á móti gestum ásamt forseta leiðtogaráðs ESB og forseta framkvæmdastjórnar ESB. Frá þeim vour gestir leiddir upp á aðra hæð og að kistu Kohls auk þess sem þeim gafst færi á að votta ekkju hans, Maike Kohl-Richter, samúð en tveir synir hans voru hvorki við athöfnina í Strassborg né jarðarförina í dómkirkjunni í Speyer.

Angela Merkel Þýskalandskanslari, arftaki Kohls sem leiðtogi CDU, var meðal ræðumanna í Strassborg. Sagt var að Maike Kohl-Richter hefði viljað banna Merkel að tala við athöfnina. 

Merkel var skjólstæðingur Kohls sem lyfti henni til valda þar til óvinátta skapaðist milli þeirra vegna fjármálahneykslis sem tengdist CDU í lok valdaferils Kohls. Í ræðu sinni sneri Merkel sér að Maike Kohl-Richter og vottaði henni samúð og minntist einnig fyrri konu Kohls, Hannelore Kohl. Við athöfnina var Maike Kohl-Richter með svartan barðastóran hatt, sólgleraugu og svart slör.

Frá Strassborg var flogið með kistu Kohls til Ludwigshafen, heimaborgar hans. Þaðan var siglt með hana á báti eftir Rín að Speyer þar sem um 1.500 manns kvöddu hann hinstu kveðju í dómkirkjunni, hvílir hann nú í garði hennar.

Kohl heyrði ég fyrst flytja ræðu á fámennum fundi áður en hann varð kanslari. Þetta var fundur þar sem flestir voru enskumælandi en hann talaði á þýsku. Virtist hann ekki hafa nógu gott vald á ensku til að koma skoðun sinni á framfæri á þann hátt sem hann kaus. Mér er enn í minni af hve miklum þunga og festu hann flutti mál sitt og hve mikla áherslu hann lagði á samstöðu Evrópuþjóða.

Minningarathöfnin í Strassborg var enn til marks um óbilandi trú hans og áhuga á samstarfi Þjóðverja og Frakka og annarra Evrópuþjóða til að tryggja frið í álfunni. 

Við sem stöndum utan Evrópusambandsins og fylgjumst til dæmis með fréttum að viðræðunum um úrsögn Breta úr því áttum okkur aldrei til fulls á gildi samstarfsins fyrir þjóðirnar sem eiga sögu blóðugra stríðsátaka á meginlandi álfunnar. Þjóðverjar og Frakkar líta á nána samstöðu sína sem lykil að friðsæld, Bretar líta á ESB sem viðskiptatækifæri, spurningu um aðild að stórum markaði.

ESB er hætta búin af því að verða of hátimbrað og fjarlægt markmiðinu um að virkja fólkið með sér. Regluveldi teknókrata dugar aldrei til að halda lífi í neinni hugsjón.