2.9.2017 11:18

Heilaga vandlætingin í þágu Rússa

Sé eitthvað í anda kalda stríðsins nú á tímum í umræðum um evrópsk öryggismál er það sú skoðun að réttlætanlegt hafi verið af Rússum að innlima Krímskaga af því að annars hefði verið sótt að þeim á óbærilegan hátt og þeir misst hernaðarlega aðstöðu við Svartahaf.

Óttar Guðmundsson læknir skrifar reglulega bakþanka í Fréttablaðið. Í dag segir hann frá því að hann og starfsfélagar hans hafi daginn sem Elvis Prestley andaðist ákveðið að loka heilsugæslustöðinni þar sem þeir störfuðu og setja miða á hurðina með þessari tilkynningu: „Lokað vegna dauða Elvis“ . Þeir hafi síðan keypt sér hvítvín. Spítalinn hafi verið opinn en stöðin ómönnuð þar til vaktin tók við. „Einhverjir bæjarbúar lásu miðann en létu sér í léttu rúmi liggja,“ segir Óttar og bætir við:

„Í dag hefðu viðbrögðin orðið önnur. Mynd hefði birst af miðanum á Facebook og alda hneykslunar hefði farið yfir samfélagið. Hinir fyrirsjáanlegu álitsgjafar samfélagsmiðlanna hefðu skrifað spekingslega pistla um þetta atvik. Árvökulir fréttamenn RÚV hefðu farið til bæjarins og náð tali af bæjarbúum. Ráðherra og landlæknir hefðu horft alvarlegum augum inn í myndavélina. Öll hugsanleg hagsmunasamtök hefðu komið fram með yfirlýsingar. Allir hefðu hoppað á vagninn í heilagri vandlætingu. Við hefðum allir hrökklast úr landi með skömm og aldrei átt afturkvæmt. Stundum er gott að hafa fæðst fyrir tíma nútímafjölmiðlunar.“

Nú á tímum er jafnvel spurning hvort Óttar verður ekki fyrir aðkasti fyrir að vekja máls á þessari augljósu breytingu sem orðið hefur á samfélaginu þar sem tækifærin til að ná sér niðri á fólki eins og Óttar lýsir eru óendanlega mörg og að ýmsu leyti lífsandi þeirra sem nærast af andrúmslofti siðapredikana og þarfarinnar fyrir að setja aðra á einhvern óæðri bás.

Við sem látum stundum að okkur kveða á Facebook þekkjum þetta.

Ég ræddi á dögunum við Ólaf Örn Haraldsson, þjóðgarðsvörð á Þingvöllum, í þætti mínum á ÍNN. Ég lýsti ég meðal annars undrun minni yfir að málefni Þingvalla hefðu verið flutt frá forsætisráðuneytinu til umhverfisráðuneytisins og nú ætti meira að segja að koma á fót nýrri ríkisstofnun, þjóðgarðsstofnun, til að herða enn frekar yfirstjórnina. Þetta bryti í bága við tilefni friðlýsingar Þingvalla.

Nokkrir sögðu skoðun sína á þættinum á Facebook og þá kom allt í einu þessi athugasemd: „ Fróðleikur fyrir BB á blaðsíðu 20 í fréttablaðinu í dag. RÚSSLAND,ÓVINUR EVRÓPU. Góð lesning fyri kaldstríð höf.“ Þetta snerti samtal okkar Ólafs Arnar ekki á nokkurn hátt en átti líklega að vera eitthvert „skot“ á mig vegna skoðana minna í öryggis- og varnarmálum sem eiga ekkert skylt við Þingvelli eða kalda stríðið. Um kalda stríðið fjallaði ég á sínum tíma en lifi ekki í því eins og höfundur athugasemdarinnar. Ég kynnti mér greinina á bls. 20 í Fréttablaðinu.

Hún er eftir Ingvar Gíslason, fyrrv. þingmann og ráðherra Framsóknarflokksins, sem rifjar upp að hann hafi skrifað leiðara í Tímann sáluga, málgagn Framsóknarflokksins, þegar Sovétríkin hrundu. Fagnar hann því að Rússar fengu þá að halda Kaliningrad (Köningsberg), hólmlendunni milli Litháens og Póllands, sem nú er öflugt víghreiður Rússa við Eystrasalt. Ingvar telur að í sama anda eigi að leyfa Rússum að eiga Krímskaga og gefur til kynna að allt frá hruni Sovétríkjanna hafi vestrænar ríkisstjórnir viljað gera á hlut Rússa.

Ég sé að Haukur Hauksson, sem hefur meðal annars verið fréttaritari ríkisútvarpsins í Moskvu, fagnar grein Ingvars sérstaklega á Facebook. Sjálfur skrifaði Haukur mánudaginn 28. ágúst miðopnugrein í Morgunblaðið til að réttlæta innlimun Rússa á Krímskaga.

Sé eitthvað í anda kalda stríðsins nú á tímum í umræðum um evrópsk öryggismál er það sú skoðun að réttlætanlegt hafi verið af Rússum að innlima Krímskaga af því að annars hefði verið sótt að þeim á óbærilegan hátt og þeir misst hernaðarlega aðstöðu við Svartahaf. NATO og einkum Bandaríkjastjórn hafi nefnilega allt frá hruni Sovétríkjanna viljað þrengja kyrkingslega að Rússum.

Fullyrðingin um aðförina að Rússum er alröng. George Bush eldri fór sem forseti Bandaríkjanna til Úkraínu eftir hrun Sovétríkjanna og talaði svo óljóst um sjálfstæði Úkraínumanna að þeim blöskraði. Þegar Bandaríkjamenn tilkynntu Íslendingum snemma árs 2006 að þeir ætluðu að kalla varnarliðið héðan á brott var það meðal annars gert með þeim rökum að Rússar væru bandamenn og samstarfsmenn NATO og ástæðulaust væri að gera sérstakar varnarráðstafanir vegna ótta við þá.

Facebook og fjölmiðlar eru ekki aðeins notaðir til að sækja að einstaklingum á þann veg sem Óttar Guðmundsson lýsir heldur einnig til að blekkja og draga upp ranga mynd af veruleikanum. Rússnesk stjórnvöld hafa sérhæft sig í þessu og er þetta kallað blönduð hernaðaraðgerð e. hybrid warfare.