22.6.2017 12:13

Harka í samkeppni og umræðum um verslunarhætti

Smásöluverslun í landinu tekur stakkaskiptum um þessar mundir. Stórar verslunarkeðjur sameinast olíufélögum. Umræður um verslunarhætti taka breytingum og harka hleypur í þær.

Smásöluverslun í landinu tekur stakkaskiptum um þessar mundir. Stórar verslunarkeðjur sameinast olíufélögum. Umræður um verslunarhætti taka breytingum og harka hleypur í þær eins og sést á orðaskipti eftir gagnrýni Þórarins Ævarssonar, forstjóra IKEA, á viðskiptahætti hér. Hann sagði nýlega í grein:

„Það er og hefur verið plagsiður í íslenskri verslun að margir kaupmenn verðleggja vörur langtum hærra en þeir reikna með að geta selt þær á. Þessir kaupmenn eru síðan reglulega með mjög ríflega afslætti, allt frá vasklausum dögum upp í allt að 50% afslátt og eru þá að rukka það sem gæti talist eðlilegt verð fyrir viðkomandi vöru. Margir hafa því miður látið glepjast af þessu og er nú svo komið að mörg fyrirtæki eru að auglýsa sérstaka tilboðsdaga nánast hverja einustu viku ársins – það nægir að lesa helgarblöðin til að fá staðfestingu á því. Fjölmörg dæmi eru síðan um það að kaupmenn hækka vöruverð rétt fyrir útsölu, bara til að geta sýnt fram á enn ríflegri afslátt í prósentum á útsölunni. Þeir einfeldningar sem keyptu vörur frá þessum fyrirtækjum á fullu verði verða að bíta það súra epli að hafa verið gerðir að fífli.“

Ekkert af þessu eru ný sannindi.

Finnur Árnason, forstjóri Haga, bregst illa við grein Þórarins og segir í samtali við Markaðinn, fylgiblað Fréttablaðsins, miðvikudaginn 21. júní:

„Ég tel að umræðan sé ósanngjörn og það hjálpar ekki þegar menn sem kasta steinum úr glerhúsi, eins og framkvæmdastjóri IKEA, tala niður íslenska verslun með rakalausum upphrópunum. Alhæfingar á þessu sviði eru hvorki sanngjarnar né réttar. Ég held að margt í íslenskri verslun sé mjög gott og margir leggja sig fram við að standa sig. Við erum til að mynda að fækka hér verslunarfermetrum og loka tískuverslunum og það er ekki til marks um að afkoman hafi verið góð. Það er erfitt að reka verslanir á Íslandi á mörgum sviðum enda lítill markaður og kostnaður mikill. Það eru margir geirar í íslenskri verslun sem eru með þeim hætti að það eru ekki sömu rekstrarskilyrði og utan landsteinanna. Innistæðulausar fullyrðingar og árásir á verslunina í heild eru ekki til að hjálpa til.“

Í viðtalinu ræðst Finnur hörðum orðum á IKEA og síðan tekur hann Ólaf Arnarson, formann Neytendasamtakanna, einnig til bæna og segir: „það er gjörsamlega út í hött að þessi maður, sem að auki er formaður Neytendasamtakanna, komi Costco af einhverjum ástæðum til varnar og haldi því fram að Jóhannes í Bónus hafi verið að blekkja neytendur eða viðskiptavini fyrirtækisins. Hann veit auðvitað betur en velur samt að taka til máls með þessum hætti“. Áður hafði Finnur sagt að Ólafur Arnarson væri „að skrifa sögu Jóhannesar í Bónuss og [hefði] verið að því í nokkur ár“.

Í sjálfu sér kemur ekki á óvart að Finnur Árnason sé harðorður. Hann er það alla jafna þegar hann telur að fyrirtækjasamsteypu sinni vegið. Spurning er hvernig það fer í viðskiptavinina.

Fréttir frá Uber sýna að til að halda velli sé skynsamlegt fyrir stjórnendur risafyrirtækja að huga vel að orðum sínum. Stofnandi og forstjóri Uber fékk uppsagnarbréf frá stærstu hluthöfum félagsins meðal annars vegna þess hve orðhvatur hann þótti. Skömmu áður hafði stjórnarmaður í Uber horfið á brott eftir að hafa sagt á stjórnarfundi í félaginu að fjölgun kvenna í stjórnum hlutafélaga leiddi venjulega til meira málæðis.