4.2.2018 11:01

Gríðargögnin móta framtíðina

Hugtakið Big Data hefur verið íslenskað með orðinu gríðargögn.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor birtir vikulega fróðleiksmola í Morgunblaðinu. Í gær laugardaginn 3. febrúar rifjaði hann upp atvikið þegar Elísabet II. Bretadrottning heimsótti London School of Economics (LSE) í London í fjármálakreppunni í nóvember 2008 og spurði: „Hvers vegna sá enginn hana fyrir, úr því að hún reyndist svo alvarleg?“

Sumarið 2009 svöruðu tveir prófessorar við LSE drottningu og sagði í niðurlagi bréfs þeirra:

„Til þess að gera langa sögu stutta, Yðar Hátign, átti kreppan sér margar orsakir. En meginástæðan til þess, að ekki var séð fyrir, hvenær hún skylli á og hversu víðtæk og djúp hún yrði, var, að fjöldinn allur af snjöllu fólki gat ekki í sameiningu ímyndað sér, hversu mikil áhættan væri fyrir kerfið í heild.“

Þessi staðhæfing leiðir hugann að annarri grein sem birtist í sama tölublaði Morgunblaðsins. Svana Helen Björnsdóttir, verkfræðingur og framkvæmdastjóri Stika ehf., ræðir þar um nýja reglugerð um persónuvernd í upplýsingakerfum sem nefnd er GDPR (General Data Protection Regulation) sem tekur gildi á Evrópska efnahagssvæðinu 25. maí nk. Með reglugerðinni á að vernda neytendur betur en áður gegn misnotkun persónuupplýsinga og draga úr söfnun þeirra og útbreiðslu. Svana Helen segir:

„Margar af vinsælustu og útbreiddustu tæknilausnum síðustu ára byggjast á söfnun og vinnslu upplýsinga. Þegar eru í boði tæknilausnir sem byggjast á gríðargagnafræðum (e. Big Data). Þá er gögnum safnað í gagnasöfn og upplýsingar af ýmsu tagi búnar til í rauntíma, allt eftir óskum notenda. Sem dæmi má nefna Google translate og Google maps, sem t.d. getur sýnt umferðarmagn á einstökum leiðum. Einnig er hægt að nýta gríðargögn til að spá um útbreiðslu farsótta. Hægt er að veita þjónustu á borð við þessa ef tekst að safna nægilega miklu af gögnum um t.d. ferðir almennings. Fólk samþykkir gjarnan hugsunarlítið skilmála til þess að fá tiltekna þjónustu, en í þeim felast oft leyfi til þess að viðkomandi fyrirtæki geti fylgst með ferðum fólks eða skoðað neytendahegðun um t.d. kaup á vöru og þjónustu. Hingað til hefur víða nægt að samþykki væri ætlað, ef viðskiptavinur hefur ekki hakað í box þar sem hann hafnar samþykki. Með nýju reglunum verður samþykki að vera ótvírætt.“

Að loknum þessum almenna inngangi ræðir Svana Helen áhrif nýju reglnanna í sjö liðum og er augljóst að þær hafa mikil áhrif. Hér verður ekki vikið að því heldur hinu að þarna sá ég í fyrsta sinn íslenskt orð fyrir ensku orðin Big Data. Í október 2017 tók ég viðtal við þýskan flotaforingja, Manfred Nielson, næst æðsta yfirmann herstjórnar NATO í Bandaríkjunum sem hefur það hlutverk að sjá fyrir breytingar á sviði hernaðar og herfræði. Texta samtalsins má lesa hér , en þar urðu meðal annars þessi orðaskipti:

„Björn: Telur þú að tæknin nú sé önnur, þú starfar í herstjórn umbreytinga, megum við vænta dróna, í lofti og í hafinu, sem unnt er að stjórna úr fjarlægð, ekki sé þörf á að vera í landi eins og Íslandi?

Nielson: Satt að segja hef ég ekki svar við þessu. Auðvitað eru ný tækifæri, þú nefnir dróna, ég mundi nefna „big data“, ég mundi nefna gervigreind, þarna er um að ræða hluti sem marka þáttaskil og við þurfum að taka með í reikninginn og íhuga hvaða áhrif þetta kann að hafa á varnartilgang NATO.

B: Þú nefndir „big data“ og það skipti miklu máli. Hvað felst í þessum orðum?

N: Frá hernaðarlegum sjónarhóli er það ávallt síðasti kosturinn að grípa til vopna. Við lítum því til alls sviðsins. Það eru mjög margar stofnanir og samtök, Sameinuðu þjóðirnar, Evrópusambandið, Rauði krossinn sem hver sinnir sínu hlutverki og safnar upplýsingum úr ólíkum áttum safna þarf þessum brotum saman og setja saman púsluspil svo að við gerum okkur betri grein fyrir hvað er að gerast á þessu sviði. Ég tel það mikilvægt því að nú þegar við sitjum hér eykst magn upplýsinga, magn gagna umtalsvert. Einstaklingar hafa ekki aðstöðu til að átta sig á öllu þessu magni upplýsinga, safna þeim og meta og nota þær síðan sem grundvöll ákvarðana.“

Vandi minn þegar ég íslenskaði samtalið var að ég kunni ekkert íslenskt orð yfir Big Data. Nú hef ég lært það: gríðargögn. Það auðveldar að skilja hvað hér er um að ræða. Gríðargögnin kunna að auðvelda að ráða í framtíðina, jafnvel greina yfirvofandi fjármálakreppu. Hér á landi sakfelldi landsdómur forsætisráðherra án refsingar fyrir að hafa ekki láta bóka í ríkisstjórn að hugsanlega yrði fjármálakreppa og íslenska bankakerfið hryndi í október 2008. Hvílík firra!