11.12.2017 10:17

Góðærið sprengir Góða hirðinn

Margir kvarðar eru notaðir til að mæla stöðu þjóðabúsins og hér að ofan er einn þeirra nefndur til sögunnar: Góði hirðirinn.

 Á mbl.is má lesa í morgun (11. desember):

„Aldrei hefur meiri úrgangur borist inn á endurvinnslustöðvar Sorpu en nú í ár. Þykir þetta magn til marks um aukið góðæri í þjóðfélaginu og slær meira að segja út hið alræmda ár 2007.

Þessa mynd tók Hari fyrir mbl.is, birtist hún með fréttinni á vefsíðunni og sýnir starfsmann Góða hirðisins glíma við offramboðið.

Samfara þessari auknu velsæld kaupa landsmenn sér nú meira af nýjum hlutum í stað notaðra, eins og algengt var á árunum eftir hrun og er nú svo komið að mikið af munum er afþakkað í Góða hirðinum því þeir seljast ekki.“

Margir kvarðar eru notaðir til að mæla stöðu þjóðabúsins og hér að ofan er einn þeirra nefndur til sögunnar: Góði hirðirinn, söludeild Sorpu, sem er sprungin vegna þess hve mikið berst að henni án þess að kaupendum fjölgi í samræmi við framboðið. Í samtalinu kemur fram að ekki sé unnt að laða að fleiri kaupendur með því að lækka vöruverðið, starfsemin verði að standa undir kostnaði við hana.

Ástæðan fyrir því að vitnað er til þessa texta á mbl.is er orðalagið í fyrri efnisgreininni. Þar birtist hugsun sem víða hefur sést í tæpan áratug og ef til vill lengur að „góðæri“ sé eitthvað sem helst beri að varast og árið sem það bar hæst fyrir hrunið 2008 er þarna sagt „alræmt“. Í málfarsbanka stofnunar Árna Magnússonar segir: „Orðið alræmdur hefur í nútímamáli fengið neikvæða merkingu: sem illt orð fer af. Það tíðkast því ekki að nota orðið í jákvæðri merkingu sem samheiti orðanna alþekktur og víðkunnur.“

Textinn endurspeglar hugarfarsbreytingu. Árið 2007 varð „alræmt“ vegna þess sem gerðist á árinu 2008 og var síðan skýrt á þann veg að váboðarnir hefðu átt að vera mönnum ljósir – kannski vegna offramboðs í Góða hirðinum? Ber ekki að lesa fréttina á mbl.is með því hugarfari?

Um nokkurt skeið hefur „góðæri“ hljómað í fjölmiðlum sem varnaðarorð. Nú er árið 2007 „alræmt“ og spjótin beinast að þeim sem efndu til mótmælaaðgerða fyrir utan heimili stjórnmálamanna, mótmælendum sem áður nutu einskonar friðhelgi hjá fjölmiðlamönnum. Skoðanir álitsgjafa og andinn sem sveif yfir fréttatímum ríkisútvarpsins var andstæður þeim sem töldu mótmælendur ganga of langt og lögregla lá undir gagnrýni t.d. vegna handtöku fólks sem ruddist inn í Alþingishúsið.

Nú eru umræðurnar á allt annan veg. Fulltrúi lögreglunnar er kallaður í fréttatíma ríkisútvarpsins til „standa fyrir máli“ lögreglunnar sem sökuð er um aðgerðaleysi í einstökum alvarlegum málum.

Þegar setið var um Alþingishúsið í tíð minni sem dómsmálaráðherra sætti ég gagnrýni innan dyra í húsinu þegar lögregla handtók einhvern mótmælanda sem hafði beinan aðgang að þingmanni stjórnarandstöðunnar og var hvatt til þess að ég gripi fram fyrir hendur lögreglunni. Þetta voru fráleitir kveinstafir.

Ég sagði þá og segi enn að við þær einstöku aðstæður stóð lögreglan sig með mikilli prýði og rataði meðalveg sem gerði ekki illt verra.