21.6.2017 15:39

Gæsla öryggis til lands og sjávar í góðum höndum

Hvort sem litið er til lands eða sjávar vill meirihluti Íslendinga að gerðar séu ráðstafanir til að tryggja öryggi þeirra.

Í dag ræddi ég við Sóleyju Kaldal, áhættusérfræðing hjá Landhelgisgæslu Íslands, í þætti mínum á ÍNN sem frumsýndur verður í kvöld klukkan 20.00. Sóley er meðal ræðumanna á ráðstefnu sem Varðberg og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands efna til í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns föstudaginn 23. júní frá 14.00 til 17.00.

Ráðstefnan er haldin undir heitinu: Aukið vægi Atlantshafs innan NATO. Heitið beinir athygli að þeirri staðreynd að undanfarna tvo áratugi eða svo hefur Norður-Atlantshafið verið einskonar aukastærð innan varnarbandalagsins sem ber nafn þess. Við hrun Sovétríkjanna hættu hafsvæðin fyrir norðan Ísland að verða framvarnar- og sóknarsvæði langdrægra rússneskra kjarnorkukafbáta. Þetta hefur breyst undanfarin ár og rússneski flotinn hagar sér nú á svipaðan hátt og sá sovéski áður.

Íslensk stjórnvöld eiga ekki beina aðild að viðbúnaði sjó- eða flugherja á þessu svæði heldur bera þau ábyrgð á leit og björgun á 1,9 milljón ferkílómetra svæði umhverfis Ísland. Við Sóley ræðum áhrif breytinganna sem hafa orðið vegna fjölgunar skemmtiferðaskipa á norðurslóðum.

Ný skoðanakönnun á vegum Maskínu (birt 20. júní) sýnir að ríflega 47% Íslendinga eru hlynnt því að vopnaðir lögreglumenn séu sýnilegir á fjöldasamkomu á Íslandi en rúmlega 34% eru andvíg því.

Spurt var „Hversu hlynnt(ur)eða andvíg(ur)ertu því að vopnaðir lögreglumenn séu sýnilegir á fjöldasamkomum á Íslandi?“ Svarendur voru 1046 en könnunin fór fram dagana 16. til 19. júní.

Íbúar Suðurlands, Reykjaness, Vesturlands og Vestfjarða eru hlynntari vopnaðri lögreglu en íbúar annars staðar á landinu eða meira en 60% íbúa þessara landshluta á móti t.d. rösklega 37% Reykvíkinga. Tekjulægsti hópurinn er sömuleiðis hlynntari vopnaburði lögreglu en aðrir tekjuhópar og þeir sem hafa háskólamenntun eru mun andvígari en þeir sem hafa minni menntun.

Einnig var spurt „Hversu jákvæð(ur) eða neikvæð(ur) ertu gagnvart lögreglunni?“og „Myndir þú upplifa þig öruggari eða óöruggari ef það væri vopnuð lögregla á fjöldasamkomu á Íslandi sem þú værir staddur/​stödd á?"

88% eru jákvæð gagnvart lögreglunni og stærri hluti þeirra er hlynntur vopnaburði. Næstum helmingur svarenda myndi upplifa sig öruggari ef það væri vopnuð lögregla á fjöldasamkomu á Íslandi sem þeir væru staddir á og næstum 85% þeirra er hlynntur því að hafa vopnaða lögreglumenn sýnilega á fjöldasamkomum.

Hvort sem litið er til lands eða sjávar vill meirihluti Íslendinga að gerðar séu ráðstafanir til að tryggja öryggi þeirra. Deilur um hvort þeir sem taka að sér öryggisgæsluna eigi síðasta orðið um notkun á lögheimiluðum búnaði eru í raun stórundarlegar. Könnun Maskínu bendir til að menntað, tekjuhátt fólk í Reykjavík telji sig vita betur en lögregluyfirvöld hvernig standa skuli að öryggismálum.

Það mætti ef til vill kanna hvort almenningur treystir þessum hópi fólks fyrir öryggi sínu frekar en lögreglunni?