18.4.2018 12:43

Furðuþrætan um landsrétt fyrir hæstarétt

Þegar fram líða stundir verður þessi deila um skipan dómara í landsrétt talin meðal furðuviðburða í réttarsögunni.

 „Hæstiréttur hefur samþykkt að veita leyfi til áfrýjunar í máli sem Arnfríður Einarsdóttir dæmdi í Landsrétti. Rétturinn mun því skera úr um hvort Arnfríður hafi verið með réttu handhafi dómsvalds þegar hún dæmdi í málinu. Stefnt er að því að dæma í málinu fyrir réttarhlé í júní og fer það því fram fyrir einhver ódæmd mál hjá réttinum,“ þetta segir í frétt á ruv.is í dag (18. apríl).

Þetta er angi deilunnar sem hófst eftir að skipaðir voru 15 dómarar í landsrétt með samþykkt alþingis fyrir tæpu ári. Dómnefnd studdist við excel-skjal til að velja þá sem hún vildi að dómsmálaráðherra skipaði. Ráðherrann kynnti listann fyrir þingmönnum og þótti þingmönnum Viðreisnar, sem þá átti aðild að ríkisstjórn, skorta konur á listann. Ráðherrann tók út fjóra af listanum og lagði hann fyrir alþingi með fjórum nýjum nöfnum, þar á meðal Arnfríðar Einarsdóttur dómara, og þannig hlaut hann samþykki.

Þrætan sem síðan hefur orðið hefur tekið á sig ýmsar myndir. Hæstiréttur telur að ráðherrann hafi átt að rökstyðja breytingartillögu sína betur með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaganna. Felld var vantrauststilaga á Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra á alþingi.

Myndin er fengin af ruv.is

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, verjandi manns sem dæmdur var í 17 mánaða fangelsi í lok mars, hefur haldið lífi í þrætunni um skipan dómaranna með því að krefjast þess að Arnfríður Einarsdóttir, einn þriggja dómara í málinu, víki sæti vegna vanhæfis. Kröfu Vilhjálms H. var hafnað af landsrétti og vísað frá í hæstarétti.

Nú þarf leyfi hæstraréttar til að hann taki þetta mál fyrir. Vilhjálmur H. sótti um slíkt leyfi og Jón H. B. Snorrason, saksóknari í málinu, studdi að leyfið yrði veitt sem nú hefur verið gert. Í frétt ruv.is segir að málið fái forgang í hæstarétti á kostnað margra einkamála sem þar bíða.

Þegar fram líða stundir verður þessi deila um skipan dómara í landsrétt talin meðal furðuviðburða í réttarsögunni. Þeir sem helst hafa stuðlað að því að flækja málið og veita því furðusvipinn eru lögfræðingar sem teygja það langt út fyrir ramma tilefnisins.

Tekist hefur að rugla marga stjórnmálamenn svo í ríminu í deilum um málið að þeir hafa farið í gegnum sjálfa sig eins og þingmenn Viðreisnar sem studdu og fögnuðu afgreiðslu alþingis í sumarbyrjun 2017 en snerust gegn dómsmálaráðherranum í atkvæðagreiðslunni um vantraust á Sigríði Á. Andersen.

Í grunninn er þetta valdabarátta milli framkvæmdavaldsins og dómsvaldsins um hvaða svigrúm ráðherra hefur við val úr hópi hæfra dómaraefna. Fulltrúar dómara vilja þrengja þetta svigrúm og birtist þetta viðhorf glöggt í viðhorfi dómnefnda til ráðherra.

Með lagabreytingu árið 2010 var ákveðið að yrði ágreiningur milli dómnefndar og ráðherra skyldi leggja málið fyrir alþingi. Það var gert í fyrsta sinn í landsréttamálinu og verður ekki sagt að reynslan af því sé góð. Allir þrír armar ríkisvaldsins hafa þvælst inn í þrætu sem stendur í raun ekki undir öllu uppnáminu. Hlutverk dómara er að leysa úr þrætum og stuðla að sátt og friði. Hæstiréttur hefur nú í hendi sér að binda enda á furðuþrætuna um landsrétt.