6.7.2017 9:45

Forréttindaröð ekki nýmæli á Keflavíkurflugvelli

Að þetta sé í fyrsta sinn sem boðin er hraðleið í flugstöð Leifs Eiríkssonar er rangt. Forréttindaröð af þessu tagi var í boði fyrir réttum 10 árum, í júlí 2007.

Í Morgunblaðinu segir í dag 6. júlí 2017 að WOW air bjóði viðskiptavinum sínum upp á svokallaða hraðleit, þ.e. að komast hraðar en almenningur í gegnum öryggisleit á Keflavíkurflugvelli. Segir blaðið í fyrirsögn að þetta sé í fyrsta sinn sem slíkt sé í boði og má skilja fréttina svo að fullyrðingin sé reist á orðum Guðna Sigurðssonar, upplýsingafulltrúa Isavia. WOW air býður þetta þeim sem bóka svokallaðan Wow biz-pakka hjá félaginu.

Að þetta sé í fyrsta sinn sem boðin er hraðleið í flugstöð Leifs Eiríkssonar er rangt. Forréttindaröð af þessu tagi var í boði fyrir réttum 10 árum, í júlí 2007, fyrir Saga-class farþega Icelandair. Mæltist hún illa fyrir og var hætt við  að veita þjónustuna

Í spunadálki Fréttablaðsins 15. júlí 2007 sagði bjorgvin@frettabladid.is:

„Margir pirrast út í tilraunir um hraðleið í gegnum öryggishlið á Keflavíkurflugvelli. Telja þetta forréttindi. Hafa ber þó í huga að oft fara þarna í gegn menn og konur sem þurfa vinnu sinnar vegna að fljúga til útlanda fjórum sinnum í mánuði. Lítill sjarmi yfir því. Þeir sem hneykslast á þessu hljóta líka að vera ósammála því að fólk borgi sig fram fyrir röð í heilbrigðiskerfinu, sem Sjálfstæðisflokkurinn og Björn Bjarnason hafa talað fyrir, þótt það gagnist bæði þeim sem bíða og þeim sem fara fram fyrir og greiða fyrir þá þjónustu. Það sama ætti að ganga yfir alla á þeim vettvangi eins í öðrum.“

Vegna þessara orða sagði ég hér á vefsíðu minni 15. júlí 2007:

„Ef fimm til tíu mínútur til eða frá leggjast svona þungt á þá, sem þurfa að fara fjórum sinnum í gegnum öryggishlið á Keflavíkurflugvelli í mánuði, má spyrja, hvort ferðin í heild sé ekki óbærileg. Að bera umræður um tilvik af þessu tagi saman við hugmyndir um aukinn einkarekstur í heilbrigðiskerfinu, er í besta falli broslegt. Hvers vegna skyldi höfundurinn ekki taka fram, að skoðanir mínar um jafnræði í opinberri þjónustu í stað ívilnana séu fráleitar, af því að ég beitti mér fyrir einkarekstri á háskólastiginu?“

Það verður forvitnilegt að fylgjast með því nú hvort forréttindaröð WOW air vekur jafnmikið umtal og tilraunin með röðina fyrir 10 árum. Nú er sú röð að vísu gleymd stjórnendum flugstöðvarinnar þótt í huga einhverra sé hún líklega til marks um þjóðfélagsæðið í aðdraganda hrunsins. Verður forrétindaröðin langlíf í flugstöð Leifs Eiríkssonar árið 2017?