22.8.2017 10:31

Fjárfestarnir í Viðreisn

Viðreisn og Hringbraut eru tæki þessa hóps fjárfesta til að vinna ESB-skoðunum sínum fylgi.

Alkunnugt er að auðmenn skipa sér í eigendahóp fjölmiðla til að hafa ítök og áhrif. Um þetta má sjá augljós merki um heim allan og neyta menn fjölmiðlaefnis með það í huga og velja sér þá miðla sem falla best af viðhorfi þeirra eða skoðunum. Fréttamiðlun á netinu hefur gert mönnum enn auðveldara en áður að fylgjast með framvindu mála á þeim grunni sem þeir treysta.

Við þessar aðstæður hefur miðlun falsfrétta aukist. Varðstaða er nauðsynleg. Fréttum um blandað stríð þar sem beitt er lygaáróðri, falsfréttum og undirróðri til að ná áhrifum fjölgar.

Í Fréttablaðnu í dag birtist frétt sem bendir til þess að íslenskir auðmenn hafi staðið að stofnun stjórnmálaflokks til að koma ár sinni fyrir borð. Í fréttinni segir:

„Fjárfestirinn Helgi Magnússon og félög honum tengd lögðu Viðreisn til 2,4 milljónir króna á síðasta ári. Þetta kemur fram í ársreikningi flokksins sem Ríkisendurskoðun hefur birt. Helgi er stærsti einstaki bakhjarl flokksins sem fékk alls rúmar 26,7 milljónir króna í framlög frá einstaklingum og lögaðilum á stofnári hans. [...]

Helgi, sem var einn af stofnendum Viðreisnar og áhrifamaður á bak við tjöldin þar frá upphafi, styrkti flokkinn um 800 þúsund krónur persónulega. Félög hans Varðberg ehf. og Hofgarðar ehf. lögðu síðan til 400 þúsund krónur hvort og bein framlög í hans nafni því komin í 1,6 milljónir. Helgi er einn af stærstu hluthöfum N1 í gegnum Hofgarða og er varaformaður stjórnar félagsins. Olíufélagið styrkti Viðreisn um 400 þúsund krónur líkt og Bláa lónið þar sem Helgi er stjórnarformaður og meðal helstu eigenda í gegnum Hofgarða. Alls nema framlög Helga og félaga sem honum tengjast til Viðreisnar því 2,4 milljónum króna eða ellefu prósentum af heildarframlögum til flokksins í fyrra.

Af öðrum bakhjörlum flokksins er náinn viðskiptafélagi Helga, Sigurður Arngrímsson, sem styrkti flokkinn um 1,2 milljónir; 400 þúsund persónulega og annað eins í gegnum félög sín Ursus Maritimus og Saffron Holding.

Eitt framlag vekur þó sérstaka athygli þótt það sé ekki af sömu stærðargráðu en það eru 200 þúsund krónur frá félaginu Miðeind ehf. Það er í eigu fjárfestisins Vilhjálms Þorsteinssonar sem þar til í lok mars í fyrra var gjaldkeri Samfylkingarinnar. Lét hann af störfum þar eftir umfjöllun um tengsl félags í hans eigu við Panama-skjölin.

Viðreisn var rekin með ríflega tíu milljóna króna tapi á stofnárinu.“

Í blaðinu segir einnig að meðal styrktaraðila flokksins séu Þórður Magnússon sem er stór hluthafi í Marel og Páll Kr. Pálsson fjárfestir.

Þeir sem fylgst hafa með umræðum um ESB-málefni á vettvangi Sjálfstæðisflokksins vita að þeir sem standa að Viðreisn, þ. á m. ofangreindir fjárfestar, hafa ekki sætt sig við að ESB-aðildarstefnu þeirra var hafnað á landsfundum flokksins. Þeir ákváðu því að stofna Viðreisn til að vinna þessu máli fylgi meðal almennings og vörðu til þess broti af eignum sínum. Þeir stóðu einnig að því að koma á fót fjölmiðlafyrirtækinu Hringbraut.

Viðreisn og Hringbraut eru tæki þessa hóps fjárfesta til að vinna ESB-skoðunum sínum fylgi. Lofsamleg skrif formanns og varaformanns Viðreisnar um ágæti evrunnar og upptöku hennar ber að lesa með þetta í huga. Flokksfjárfestarnir vilja að þau haldi sér við efnið. Spurning er hvenær þeir telja þau hafa þjónað hlutverki sínu á alþingi.