28.8.2017 8:49

Fíllinn í tölfræði ferðaþjónustunnar

Gistináttatölur ná ekki utan um Airbnb nema að takmörkuðu leyti. Sterkar vísbendingar eru um að gistinóttum á Airbnb hafi fjölgað gríðarlega á undanförnum misserum.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, skrifar grein í sunnudagsblað Morgunblaðsins sem kom út 26. ágúst þar sem hún ræðir um talningu á ferðamönnum sem koma til landsins.  Greinin ber fyrirsögnina: Hausatalningar og aðalatriði. Þar segir:

„Fíllinn í herberginu hvað varðar skekkjur í mati á umfangi ferðaþjónustunnar er sú staðreynd að gistináttatölur ná ekki utan um Airbnb nema að takmörkuðu leyti. Sterkar vísbendingar eru um að gistinóttum á Airbnb hafi fjölgað gríðarlega á undanförnum misserum. Að undanskilja þær veldur því að öllum líkindum umtalsverðu vanmati á meðaldvalarlengd ferðamanna. Tölum um styttri dvalartíma ferðamanna, sem taka ekki Airbnb með í reikninginn, ber því að taka með miklum fyrirvara.“

Hér á síðunni hef ég vakið athygli á að útbreiðsla Airbnb er hlutfallslega meiri hér á landi en í nokkru öðru landi á jarðarkringlunni. Þá er einnig langdýrast að nýta sér þjónustu Airbnb á Íslandi sé borið saman við Evrópulönd. Ofurverðið bendir til að eftirspurnin sé meira en framboðið þrátt fyrir hve margir bjóða húsnæði á Airbnb.

Með þetta í huga vekur sérstaka athygli þegar ráðherra ferðamála bendir á að gistináttatölur sem birtar eru nái ekki nema „að takmörkuðu leyti“ utan um Airbnb á Íslandi.

Kenningar hafa verið uppi um að hátt gengi krónunnar leiði til þess að hver ferðamaður dveljist hér skemmri tíma en áður, í færri gistinætur. Þá má einnig leiða líkur að því að ódýr flugfargjöld til landsins kalli á skemmri dvöl í landinu en áður. Allar þessar vangaveltur eru þó reistar á sandi ef ekki eru fyrir hendi tölfræðilegar upplýsingar um Airbnb-gistingun og nýtingu hennar.

Einkaframtakið í sinni skýrustu mynd birtist í Airbnb og mörgum öðrum þáttum deilihagkerfisins. Þar er mikill vaxtarbroddur ekki síður en annars staðar á sviði ferðaþjónustunnar. Það ber að hlú að honum eins og öðru og hafa hann með inni í myndinni þegar hún er skoðuð, annars lýsir hún öðru en því sem er.