1.6.2018 10:46

Félagsstofnun stúdenta í 50 ár

Húsnæðismál stúdenta hafa jafnan vegið þyngst hjá FS og nú rekur stofnunin 1.200 íbúðir.

Í dag fagnar Félagsstofnun stúdenta (FS) 50 ára afmæli sínu með sérstökum blaðauka í Fréttablaðinu. Þar birtist viðtal við Guðrúnu Björnsdóttur, framkvæmdastjóra FS, Elísabetu Brynjarsdóttur, forseta Stúdentaráðs, og mig um upphaf og starfsemi FS en hjá henni starfa nú um 170 manns. Á árunum 1966 til 1968 var ég laganemi við Háskóla Íslands, varaformaður og formaður Stúdentaráðs. Vann ég að því að hrinda hugmyndinni um FS í framkvæmd í samvinnu við aðra í Stúdentaráði og Ármann Snævarr háskólarektor.

Við sóttum fyrirmyndina til Studentsamskipnaden í Osló en tveir forystumenn þeirrar öflugu stofnunar voru Kristian Ottosen, forstjóri, og Tönnes Andenæs, forstjóri Universitetsforlaget. Þeir voru miklir Íslandsvinir og komu hingað til lands árið 1966 til að kynna skipulag og starf stofnunar sinnar.

Húsnæðismál stúdenta hafa jafnan vegið þyngst hjá FS og nú rekur stofnunin 1.200 íbúðir. Um þetta segi ég meðal annars í viðtalinu:

„Það er einkennilegt hversu gífurlega flókna umgjörð þarf til að ná markmiðum sem Félagsstofnunstúdenta hefur nú þegar náð með mjög einfaldri umgjörð. Maður horfir upp á endalausar deilur um húsnæðismál hér á landi á meðan FS hefur dafnað vel og starfað í 50 ár. Fyrirtæki sem er sjálfbært og hagkvæmt í byggingarekstri og stendur fyrir sínu undir mjög hnitmiðuðum lögum. Bæði þá og nú eru menn sammála um þörfina og það hefur skapast fullkominn friður um þessa starfsemi.“

Í störfum mínum á stjórnmálavettvangi hef ég leitt deilur um húsnæðislöggjöfina hjá mér. Viðfangsefni mín hafa verið á öðrum sviðum. Á hinn bóginn hef ég hlustað á langar og harðar deilur um leiðir að markmiðum í þessum efnum án þess að nokkur endanleg sátt hafi myndast um þær enda einkennast þær oftast af því að einhverjir vilja slá sig til riddara með einhverri „patentlausn“ sem auðvitað er ekki fyrir hendi.

Nú þarf svipað stórátak í húsnæðismálum og gert var á tíma viðreisnarstjórnarinnar á sjöunda áratugnum þegar verkalýðshreyfingin og ríkisvaldið tóku höndum saman með Reykjavíkurborg sem lagði til land undir nýbyggingar og Breiðholtið varð að blómlegri byggð.

Þegar litið er til baka má líta á Félagsstofnun stúdenta sem sprota frá viðreisnarárunum sem síðan hefur fengið að vaxa í friði og sátt og án þess að verða að skotspæni þeirra sem hafa staðið þannig að mótun opinberrar húsnæðisstefnu að í óefni er komið.