28.7.2017 12:18

Fámenni í Frankfurt - fjölmenni í Keflavík

Hvarvetna var múgur og margmenni, langar biðraðir við rana út í flugvélar – í einu orði sagt troðningur. Við veggi sat eða lá fólk. Allt var þetta í hróplegri andstöðu við kyrrðina og fámennið á vellinum í Frankfurt.

Þegar farið var frá Frankfurtflugvelli kl. 22.30 í gærkvöldi var önnur tveggja flugstöðvanna þar (Terminal 2) næstum mannauð enda mátti skilja starfsmenn vallarins á þann veg að aðeins ein önnur flugvél ætti eftir að fara þaðan þá um kvöldið á eftir Icelandair-vélinni. Þjónusta við farþega var í samræmi við fámenni þeirra.

Við innskráningu í Frankfurt er unnt að nota skráningarvél. Passinn er lagður á þar til gerðan stað á vélinni og út úr henni kemur miði til að líma á töskur og brottfararspjald. 

Á Keflavíkurflugvelli er frá slíkri vél unnt að fara að mannlausum innritunarborðum sem viðurkenna móttöku á töskunni eftir að brottfararspjaldið hefur verið lagt á viðeigandi stað sem opnar leið fyrir farangurinn út í flugvélina. 

Á flugvellinum í Frankfurt var ekki unnt að nýta sér þessa mannlausu þjónustu fyrir töskuna heldur þurfti að bíða í röð með þeim sem ekki höfðu skráð sig á þennan hátt, annars hefði ekki verið unnt að koma töskunni um borð í flugvélina.

Flugvöllurinn í Frankfurt getur tekið á móti allt að 65 milljónum farþega á ári. Farþegafjöldinn er árlega rúmlega 60 milljónir. Umferðin um flugvöllinn er fjórða mesta á Evrópu á eftir Heathrow í London, Charles de Gaulle í París og Schipol í Amsterdam.

Icelandair-vélin var á áætlun. Skömmu fyrir lendingu ávarpaði flugstjórinn farþega og baðst afsökunar á að hafa ekki gert það við upphaf ferðarinnar eins og venja er, hann hefði verið svo önnum kafinn við að hraða brottförinni sem mest hann mátti. Undir lok ávarpsins lét flugstjórinn þess getið að vegna þess að seinkun hafi verið á vélinni frá Íslandi hafi hann orðið að skilja hluta farangursins eftir á flugvellinum í Frankfurt.

Árið 2011 var fjórða flugbrautin tekin í notkun í Frankfurt. Unnt var að leggja hana eftir að samningar náðust við andstæðinga stækkunar vallarins og var meðal annars samið um að ekkert flug yrði á fellinum frá 23.00 til 05.00. Yfirvöld í sambandslandinu Hessen töldu árið 2007 að þetta bann ætti ekki að ná til 17 næturfluga á vegum flutningafyrirtækja.

Stjórnsýsludómstóll í Hessen komst að þeirri niðurstöðu í október 2011 að ákvörðun Hessen-stjórnarinnar frá 2007 væri ólögmæt og bannaði því 17 næturflugin og þýski sambands-stjórnsýsludómstóllinn staðfesti þá niðurstöðu í apríl 2012. Allt flug er því bannað um flugvöllinn í Frankfurt frá 23.00 til 05.00.

Klukkan var 12.00 á miðnætti þegar lent var á Keflavíkurflugvelli. Vegna mikilla umsvifa á flugvellinum var vélinni lagt nokkurn spöl frá flugstöðvarbyggingunni og farþegunum ekið í flugvallarvagni að stöðinni ­– að inngangi eins fjarri töskubeltunum og frekast er kostur þannig að við tók ganga eftir endilöngum ranghala stöðvarinnar.

Hvarvetna var múgur og margmenni, langar biðraðir við rana út í flugvélar – í einu orði sagt troðningur. Við veggi sat eða lá fólk. Allt var þetta í hróplegri andstöðu við kyrrðina og fámennið á vellinum í Frankfurt.

Ekki tók betra við í salnum við töskubeltin. Hann virtist troðfullur þegar yfir hann var litið. Í okkar hópi skiluðu tvær af þremur töskum sér. Þá tók við bið við að skrá týndan farangur í von um að fá hann heimsendann í dag. Þegar sú röð var kvödd mátti ímynda sér að þeir öftustu þyrftu að bíða þar jafnvel tímunum saman.

Þegar komið var út í anddyri flugstöðvarinnar var þar einnig margmenni, biðraðir við seðlavélar og við að ná í bílaleigubíla ­– meira að segja stóð fjöldi fólks utan dyra klukkan rúmlega 01.00 í von um ná í leigubíl.

Við ferðamanninum blasir 24 stunda nýting á Keflavíkurflugvelli og flugstöð Leifs Eiríkssonar í þrengslum sem varla eru forsvaranleg á háannatíma. Þótt þjarkar innriti fólk og skoði nú einnig vegabréf vegna Schengen-hliða verður að gæta nauðsynlegra þrifa og umhirðu. 

Spyrja má hvað ræður allri þessari miklu næturumferð um Keflavíkurflugvöll. Sjá flugfélög sér hag af því að nota hann á meðan flugvellir eins og í Frankfurt eru lokaðir? Áætlun er svo þröng að skilja verður eftir töskur til að komast á brott þaðan fyrir næturlokun. 

Að kynnast þessum mikla mun á næturstarfsemi tveggja flugvalla vekur spurningu um hvað réð þessari þróun á Keflavíkurflugvelli. Er einfaldlega litið á hana sem sjálfsagða og eðlilega vegna óska flugfélaga? Var gert markaðsátak til að kalla á þessa næturstarfsemi á dauðum tíma annarra flugvalla?

Lamið er á krónunni þegar boðaður er samdráttur í komu ferðamanna. Oft er krónan blóraböggull til að draga athygli frá hreinu okri á ferðamönnum. Þá er ólíklegt að yfirfull flugstöð með biðröðum nótt sem nýtan dag hafi heillvænleg áhrif.

 ps. taskan kom frá Frankfurt með bíl frá Póstinum kl. 21.58 28. júlí.