30.5.2018 10:07

Fækkar á uppboði Viðreisnar

Í ljós kemur hverjum Viðreisn selur sig að lokum. Þegar gengið er fram með hæsta verð í huga víkja stefnumál og hugsjónir einfaldlega.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sagði í sjónvarpsumræðum flokksforingja að loknum kosningunum að Viðreisn mundi selja sig dýrt. Er einstakt að flokksformaður bjóði sig og flokk sinn upp á þennan hátt.

Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, ætlar ekki að taka þátt í uppboðinu. Sanna sagði á Morgunvakt Rásar 1 í dag (30. maí) að samstarf við Viðreisn í borgarstjórn Reykjavíkur kæmi ekki til greina. Hún sagði:

 „Ég held svo að í samræðum um meirihlutasamstarf að þá er líklegt að Viðreisn kæmi alltaf til dæmis að borðinu þar. Við Sósíalistar lítum á Viðreisn sem enn eitt afl nýfrjálshyggjunnar sem er eitthvað sem við tölum gegn og við leggjum mikla áherslu á að draga úr áherslum nýfrjálshyggjunnar á samfélagið. Þannig að við viljum ekki ganga inn í eitthvað þar sem við þyrftum að slá af kröfum okkar af því að við ætlum ekkert að gefa afslátt af því.“

Viðreisn fælir sem sagt borgarfulltrúa sósíalista frá þátttöku í meirihluta í borgarstjórn. Sósíalistar ætla að sitja einir að sínu. Dagur B. getur þó náð saman 12 borgarfulltrúum að baki sér með sínum 7, Viðreisn 2, Píratar 2 og VG 1 – hugsanlegt varadekk: Flokkur fólksins 1.

Í ljós kemur hverjum Viðreisn selur sig að lokum. Þegar gengið er fram með hæsta verð í huga víkja stefnumál og hugsjónir einfaldlega.

Þessi mynd af borgarfulltrúum Viðreisnar, Pawel Bartoszek og Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur, birtist fyrir kosningar á dv.is

Benedikt Jóhannesson, stærðfræðingur og stofnandi Viðreisnar, ritaði grein í Morgunblaðið 26. apríl þar sem hann lýsti dugleysi Dags B. Eggertssonar borgarstjóra og meirihlutans sem þá var að baki honum. Benedikt sagði meðal annars:

„Lítil saga varpar ljósi á stöðuna í Reykjavík. Fjölskylda í Vesturbænum hafði samband við borgina og bað um að bláa sorptunnan yrði fjarlægð. Sama dag pantaði hún græna tunnu frá einkafyrirtæki. Daginn eftir kom græna tunnan. Sú bláa var enn á sama stað tveimur mánuðum seinna.

Reykvíkingar eiga það skilið að borginni sé stjórnað af bæði metnaði og ábyrgð. Því miður virðist skorta á hvort tveggja hjá núverandi borgarfulltrúum.“

Ætla tveir fulltrúar Viðreisnar að mynda meirihluta með borgarfulltrúum sem stofnandi flokksins lýsir á þennan hátt? Kannski tekur Benedikt sömu afstöðu og Gunnar Smári Egilsson, stofnandi Sósíalistaflokksins, og bannar sínu fólki einfaldlega að fara í meirihluta? Benedikt þarf ekki annað en benda Þorgerði Katrínu á að verðið sé ekki nógu hátt.