27.8.2017 10:28

Enskan og rækt við menningararfinn

Vegna þessa aukna samneytis fólks af ólíkum þjóðernum hefur ein tunga, enska, náð yfirburðum í öllum samskiptum þjóða í milli.

Claus Krumrei, þýski sendiherrann í Kaupmannahöfn, lætur þar af störfum innan skamms. Að því tilefni er rætt við hann í Jyllands-Posten um samband Þjóðverja og Dana. Sendiherrann tekur undir að Danir og Þjóðverjar líkist umtalsvert hvor öðrum og minnir á að nýlega hafi verið vakið máls á því á prenti að rætur Danmerkur séu í Aþenu, Róm og Wittenberg, bæ Martins Lúthers. Sjá megi þýsk áhrif víða í dönsku samfélagi.

Blaðamaðurinn gagnrýnir að í fréttum danska sjónvarpsins hafi menn ekki burði til að ræða Þjóðverja sem komi til Danmerkur á þýsku heldur noti ensku. Sendiherrann svarar:

„Tungumálið er miklu mikilvægara en við höldum. Það snýst ekki um að við Þjóðverjar eigum að rækta eigin hégómagirnd með því að útlendingar kunni einnig þýsku. Tungumálið ræður úrslitum um að maður skilji hvað um er að ræða; vegna bókmennta, til samskipta og almenns skilnings; hvert sem litið er ekki síst á sviði viðskipta. Það dugar einfaldlega ekki að segja að við getum bara öll talað ensku.“ 

Þessi orðaskipti minna á þá staðreynd að nú er minni rækt lögð við tungumálanám innan íslenska skólakerfisins en var fyrir hálfri öld þegar landið var miklu einangraðra og þörfin önnur fyrir kunnáttu í tungumálum í daglegu lífi minni en nú á tímum þegar um tvær milljónir ferðamanna af öllum þjóðernum streyma til landsins. 

Vegna þessa aukna samneytis fólks af ólíkum þjóðernum hefur ein tunga, enska, náð yfirburðum í öllum samskiptum þjóða í milli. Íslenskur sjónvarpsmaður fer til Færeyja, gerir þáttaröð um heimamenn og talar við þá á ensku. Lengra verður varla gengið til að sanna yfirburði enskunnar í samskiptum þjóða. Ef til vill nota menn ekki lengur dönsku á opinberum fundum þar sem Grænlendingar, Íslendingar og Færeyingar hittast. Það er þó hluti sameiginlegs menningararfs þessara þjóða að hafa verið hluti af danska ríkjasambandinu.

Að ákveða þegjandi og hljóðalaust að nota ensku að jafnaði þegar menn með ólík móðurmál tala saman er eitt og í anda þess að einfalda allt og gera auðveldara og svipminna, hitt er forkastanlegt að ætla sér að innleiða ensku í samskiptum erlendra fyrirtækja sem hér hasla sér völl við íslenska viðskipskiptavini. 

Íslendingar eiga eins og Danir arf að sækja til Aþenu, Rómar og Wittenberg en sá sem vakti máls á þessu í Danmörku hefði einnig að ósekju mátt geta um norræna arfinn frá Snorra í Reykholti. Rækt við hann skiptir miklu og virðing hans við hlið arfsins frá Aþenu og Róm vex en minnkar ekki.