3.11.2017 10:18

Eitt atkvæði Pírata ræður úrslitum

Svarið sýnir að Björn Leví er alls ekki sjálfum sér samkvæmur. Sama kerfi gilti við kosningarnar 2016 og 2017.

Merkileg orðaskipti áttu sér stað á Facebook í gær um hvort Katrínu Jakobsdóttur, formanni vinstri grænna (VG), takist að afla sér stuðnings 32 þingmanna í formlegu viðræðunum sem hún fékk í gær umboð til að hefja.

Pawel Bartoszek, fyrrverandi þingmaður Viðreisnar, nefndi á Facebook fimmtudaginn 2. nóvember að Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, hefði ítrekað sagt í umræðum á alþingi í tíð síðustu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, að stjórnin hefði ekki meirihluta atkvæða á bak við sig þrátt fyrir að hafa tæpan meirihluta þingmanna á Alþingi eða 32. Þetta bæri ekki að líða.

Benti Pawel á að kæmi til stjórnarsamstarfs VG, Framsóknarflokksins, Samfylkingarinnar og Pírata yrði sú ríkisstjórn einnig með færri atkvæði á bak við sig en stjórnarandstaðan eða 95.874 atkvæði gegn 97.502.

Bjarni Þór Pétursson spurði: 

„Segjum sem svo að þessi fjögurra flokka stjórn verði mynduð og þing komi saman. Minnihlutinn leggi síðan fram vantrauststillögu út frá þeim forsendum að á baki þessum meirihluta sé minnihluti atkvæða. Hvernig myndir þú greiða atkvæði um slíkt Björn Leví Gunnarsson?“

Björn Leví Gunnarsson svaraði:

„Ég myndi fella þá tillögu. Það er ekkert við þær aðstæður sem segir að stjórnin skili ekki vandaðri vinnu sem stenst gagnrýni.

Þegar allt kemur til alls þá snýst vantraust um skort á trausti eða einhvers konar misbeitingu á valdi. Það eina sem þessi vantrauststillaga væri að segja er að kosningakerfið okkar er gallað --- sem ég er alveg sammála. En það er ekki þingmönnunum sem fengu umboðið með þeim reglum að kenna. Það má hins vegar gagnrýna það all vandlega ef reglurnar eru svo ekkert lagaðar.“

Þetta svar þingmanns Pírata er í samræmi við meginstefnu flokksins: hún snýst um kerfissjónarmið en ekki efnislega afstöðu þegar þingmenn flokksins telja sér ekki fært að sitja hjá eða skila auðu.

Svarið sýnir að Björn Leví er alls ekki sjálfum sér samkvæmur. Sama kerfi gilti við kosningarnar 2016 og 2017. Stjórnin sem mynduð var á grundvelli kerfisins þá var óboðleg að mati Björns Levís af því að hana skorti umboð meirihluta kjósenda. Stjórn sem mynduð yrði nú án umboðs meirihluta kjósenda er hins vegar boðleg að mati Björns Levís af kosningakerfið er gallað!

Sé rétt munað notaði Björn Leví ræðustól alþingis til að hundelta Bjarna Benediktsson forsætisráðherra vegna einhvers misræmis sem hann taldi sig hafa fundið í málflutningi ráðherrans. Spurning er hvort umskiptingur setjist í stól Björns Levís á þingi verði skipt um stjórn.