15.1.2018 10:15

Dýrkeypt tilraun til að styrkja Strætó

Kjarni greinar Eyþórs er einmitt sá að síðan 2013 hafi verið gerð dýrkeypt en árangurslaus tilraun á vegum meirihlutans í Reykjavík til að breyta umferðarvenjum fólks.

Hér hefur áður verið vakið máls á greinilegri áherslubreytingu á vefsíðunni Eyjunni við nýleg eigendaskipti á fyrirtækinu sem að baki henni stendur. Þetta kemur vel í ljós í dag (15. janúar) þegar vitnað er í grein eftir Eyþór Arnalds, frambjóðanda í leiðtogakjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík, sem birtist í Morgunblaðinu í dag.

Lesendum Eyjunnar til fróðleiks er þeim skýrt frá því að Eyþór sé „einn eigandi [svo!] Morgunblaðsins“ – rétt er að hann er einn eiganda blaðsins. Hvort þetta skipti máli um efni máls Eyþórs sem fjallar um umferðarmál er vandséð. Í hinu felst greinileg pólitísk afstaða ritstjórnar Eyjunnar að segja vörn Eyþórs fyrir einkabílinn „kunnuglegt Sjálfstæðisstef“.

Því miður verður að segja þá sögu eins og hún er að þetta er ekkert einhlítt „Sjálfstæðisstef“ því að erfitt hefur verið að átta sig á stefnu margra sveitarstjórnarmanna Sjálfstæðisflokksins þegar rætt er um umferðarmál og þróun þeirra. Ýmsir virðast hafa á því trú að með þvingunaraðgerðum verði unnt að fæla fólk frá að nota einkabílinn og nýta sér strætó eða svonefnda borgarlínu, óljóst hugtak sem er teygt og togað eftir hentugleikum talsmanna þess.

Af vefsíðu SSH.

Kjarni greinar Eyþórs er einmitt sá að síðan 2013 hafi verið gerð dýrkeypt en árangurslaus tilraun á vegum meirihlutans í Reykjavík til að breyta umferðarvenjum fólks.

Eyþór segir:

 „Reykjavíkurborg gerði 10 ára samning við ríkið árið 2013 þar sem ákveðið var að 1 milljarður á ári sem hefði annars farið í nauðsynlegar framkvæmdir á stofnbrautum í Reykjavík rynnu til Strætó. Markmið samningsins var að auka almenningssamgöngur sem hlutfall af ferðum úr 4% í 6%. Nú, fimm árum síðar er hlutfallið ennþá um 4% og hefur því ekkert vaxið. Fimm milljarðar hafa farið forgörðum í þetta tilraunaverkefni og er ljóst að tilraunin hefur mistekist.“

Eyþór Arnalds kvað ekki eins fast að orði um borgarlínuna og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sem sagði: „Þetta er í rauninni bara galið.“ Eftir að þessi ummæli féllu tók Dagur B. Eggertsson borgarstjóri til við að reyna sannfæra lesendur sína á Facebook um að hann og Sigmundur Davíð væru í raun sammála um ágæti borgarlínunnar!