2.5.2018 10:08

Draumabyggð meirihlutans við Furugerði

Þétting íbúanna er langt umfram það sem segir í aðalskipulagi; þeir fara á reiðhjólum um þrengdan Grensásveg og greiða sérstakt gjald fyrir að vera nálægt borgarlínunni.

Þétting byggðar í tíð núverandi meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur hefur leitt til húsnæðisskorts. Hún hefur einnig í för með sér ágreining við íbúa í grónum hverfum sem sætta sig illa við að „ruðst“ sé inn í hverfin, jafnvægi raskað eða skapaður vandi, til dæmis með skorti á bílastæðum. Stefnuatriði meirihlutans er að skapa skort á bílastæðum og neyða fólk til að nota almenningsfarartæki eða reiðhjól.

Deilan vegna fyrirhugaðra framkvæmda við Furugerði er dæmigerð því að þar koma til álita öll helstu stefnumál meirihlutans:

1.   Í aðalskipulagi segir um þetta byggingarland: „Svæðið er að mestu fullbyggt og fastmótað. Möguleiki er á lítilsháttar þéttingu íbúðabyggðar (4-6 íbúðir) við Furugerði, næst Bústaðavegi (Gróðrarstöðin Grænahlíð).“ Nú hefur verið heimilað að reisa þarna hús sem rúma allt að 37 íbúðum.

2.   Vakið er máls á því að ekki sé nægt rými fyrir bílastæði fyrir allar þessar íbúðir. Svar borgaryfirvalda er að íbúar við Furugerði geti „nýtt reiðhjól sem samgöngumáta, til jafns við bifreið, þar sem breytingar á Grensásvegi hafa leitt til betra aðgengis fyrir reiðhjól“. Meirihlutinn eyddi 200 m. kr. til að þrengja Grensásveginn og vill nú fá eitthvað fyrir sinn snúð.

3.   Fréttir hafa birst um að af nýju húsunum í Furugerði verði innheimt innviðagjald,15 þúsund krónur á hvern fermetra  eða 1,5 milljón krónur á hverja 100 fermetra íbúð. Á það meðal annars að standa undir kostnaði við borgarlínuna.

Þessi teikning hefur birst í fjölmiðlum og sýnir nýju húsin (blá og rauð) við Furugerði.

Eins og af þessari upptalningu sést rís draumabyggð núverandi meirihluta við Furugerði: Þétting íbúanna er langt umfram það sem segir í aðalskipulagi; þeir fara á reiðhjólum um þrengdan Grensásveg og greiða sérstakt gjald fyrir að vera nálægt borgarlínunni.

Í leiðara Morgunblaðsins í dag (2. maí) er rætt um áformin í Furugerði og sagt frá því að þegar nágrannar mótmæltu hafi borgaryfirvöld hótað þeim með þessum orðum að „strangt til tekið [sé] möguleiki á að fara upp í allt að 49 íbúðir á þessum reitum án þess að breyta aðalskipulagi Reykjavíkur“.

Nýlega skrifaði Trausti Valsson, fyrrv. prófessor í skipulagi við HÍ, grein í Morgunblaðið um borgarlínu og sagði meðal annars að línubyggð „byði vissulega upp á nálægð við borgarlínuna en mundi, að áliti undirritaðs, verða dauð, ljót og leiðinleg. Þessi byggð mundi að auki stinga í stúf við byggðarmynstur sveitarfélaganna.“ Fyrir slíka byggð á innheimta sérstakt innviðagjald í Furugerði.

Einfaldasta og fljótlegasta leiðin til að losa borgarbúa undan þessum hremmingum Dags B. Eggertssonar og snillinga hans er að hafna þeim í kosningunum 26. maí.