7.4.2018 11:06

Dómarar í Slesvík ögra Madrid-valdinu

Hnúturinn vegna sjálfstæðiskröfu Katalóníumanna verður ekki leystur á Spáni.

Þegar Carles Puigdemont, fyrrv. forseti héraðsstjórnar Katalóníu, var handtekinn í Slesvík-Holstein í Þýskalandi fyrir tæpum tveimur vikum lá í loftinu að aðeins yrði formsatriði fyrir þýsk yfirvöld að framselja hann til Spánar eins og stjórnin í Madrid krafðist. Nýttu Spánverjar sér reglur um evrópska handtökutilskipun og óskuðu framsals á Puigdemont fyrir í fyrsta lagi að hafa stofnað til uppreisnar á Spáni og í öðru lagi fyrir að hafa misfarið með opinbert fé með greiðslu kostnaðar við ólöglega þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Katalóníu.

Málið reyndist flóknara þegar á reyndi. Æðsti dómstóll í Slesvík-Holstein neitaði að verða við kröfu spænskra stjórnvalda um framsal vegna uppreisnar. Framganga Puigdemonts hefði ekki brotið gegn þýskum lögum, til að menn yrðu dæmdir fyrir uppreisn þar yrðu þeir að hafa beitt valdi, það hefði Puigdemont ekki gert. Honum var sleppt úr haldi föstudaginn 6. apríl gegn tryggingu og látinn sæta farbanni. Fréttaskýrandi hjá Deutsche Welle segir að dómurinn sýni að aðskilnaðarsinnar víða í Evrópu t.d. Suður-Týról og Korsíku geti leitað hælis í Þýskalandi í trausti þess að verða ekki handteknir. Þá  veiki dómurinn traust til evrópsku handtökutilskipunarinnar. Stjórnvöld sem óska eftir framsali ákveði efni ákæru og síðan taki dómstóll í landi þeirra afstöðu til málsins á grundvelli eigin laga. Þýskir dómarar hafi nú vegið að þessu svigrúmi spænskra dómstóla, þeir hafi skapað fordæmi innan spænska réttarkerfisins, ekki sé unnt að sækja Puigdemont til saka þar fyrir uppreisn.

Carles Puigdemont fagnar frelsi í Slesvík-Holstein föstudaginn 6. apríl,

Heribert Prantl, aðalritstjóri Süddeutsche Zeitung í München, sem áður var dómari og saksóknari, segir að Katalóníudeilan sé ekki aðeins innanríkismál Spánar. Hann er þeirrar skoðunar að forráðamenn ESB og forystumenn Þýskalands og Frakklands verði að benda Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, á að þessi stjórnmáladeila verði ekki leyst með því að beita hegningarlögum.

Aðalritstjórinn bendir á að eftir standi ásökunin um að Puigdemont hafi misfarið með opinbert fé. Hann spyr hvaða aðra fjármuni hefði átt að nota til að kosta þjóðaratkvæðagreiðsluna. Prantl segir þennan lið ákærunnar svo nátengdan kærunni um uppreisn, sem hafi verið hafnað, að hann sjái ekki að unnt sé að samþykkja framsal vegna þessarar ásökunar.

Prantl telur eðlilegt að þýska ríkisstjórnin skipti sér ekki af gangi málsins innan réttarkerfisins, þar sé það leitt lögfræðilega til lykta. Hins vegar verði stjórnmálamenn að finna stjórnmálalega lausn á málinu:

„Mál Puigdemonts og ákvörðunin sem tekin var í Slesvík sýna að áhrif þessarar miklu deilu ná langt út fyrir Spán og íþyngja einnig Evrópusambandinu,“ segir Prantl í samtali við Euronews.

Hnúturinn vegna sjálfstæðiskröfu Katalóníumanna verður ekki leystur á Spáni. Puigdemont hefur tekist að gera hann að pólitísku, evrópsku úrlausnarefni hvort sem herrunum í Madrid og Brussel líkar betur eða verr.