2.6.2017 11:27

Dómaramálið styrkir stjórnarsamstarfið

Ríkisstjórnarsamstarfið styrktist við afgreiðslu dómaramálsins og annarra mála á lokadögum þingsins.

Heiftin í málflutningi Jóns Þórs Ólafssonar, þingmanns Pírata, segir allt sem segja þarf um rökþrot andstæðinga tillögu Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra um að skipta út fjórum af fimmtán dómaraefnum sem dómnefnd kynnti til sögunnar.

Hér má sjá þingmanninn fara hamförum í ræðustól alþingis.

Tillaga dómsmálaráðherra um skipun fimmtán dómara við Landsrétt var samþykkt á alþingi um klukkan 18.00 fimmtudaginn 1. júní, eftir maraþonfundi í stjórnkerfis- og eftirlitsnefnd þingsins og miklar umræður í þingsalnum. 

Þingforseti frestaði fundum alþingis fram yfir sumarleyfi skömmu eftir atkvæðagreiðsluna.

Tillaga dómsmálaráðherra var samþykkt með 31 atkvæðum stjórnarmeirihlutans gegn 22 atkvæði minnihlutans. Framsóknarmenn greiddu ekki atkvæði. 

Brynjar Níelsson og Svandís Svavarsdóttir voru fjarverandi en Arnfríður Einarsdóttir, eiginkona Brynjars var meðal dómaraefna ráðherrans. Ráðherrann lagði hins vegar til að barnsfaðir Svandísar, Ástráður Haraldsson, sem var meðal tilnefndu frá dómnefndinni yrði ekki í Landsrétti.

Píratar höfðu boðað fyrir atkvæðagreiðsluna að kæmi meirihlutinn til með að fella tillögu minnihlutans um að vísa málinu aftur til ráðherrans myndu þeir leggja fram vantrautstillögu á Sigríði. Frávísunartillagan var felld með 31 atkvæði gegn 30. Píratar fluttu ekki vantrauststillögu.

Píratar dæmdu sig úr leik með framgöngu sinni í þessu máli eins og öðrum þegar til þess kemur að taka verði málefnalega afstöðu á alþingi. Þeim er það ógerlegt. Tvíeykið með lengstu þingreynsluna í hópi Pírata, Jón Þór og Birgitta Jónsdóttir, sýndu enn hvers vegna ekki er heil brú í starfi forystulauss þingflokks Pírata. Að einhverjum annarra flokka mönnum hafi einhvern tíma dottið í hug að ganga til stjórnarsamstarfs við þennan flokk verður sífellt furðulegra.

Á sinn hátt var atkvæðagreiðslan um dómarana uppgjör innan þings gagnvart Pírötum. 

Þingmenn vinstri-grænna tóku flokkspólitíska afstöðu í málinu gegn dómsmálaráðherra í þeirri von að geta splundrað stjórnarsamstarfinu. Flokkurinn situr eftir með mjög neikvæða afstöðu gegn dómurum í nýjum dómstóli.

Sá varnagli var settur í tíð stjórnar Jóhönnu og Steingríms J., Samfylkingar og vinstri-grænna, að við val á dómurum væru hendur ráðherra ekki endanlega bundnar af val- eða dómnefnd heldur gæti hann gert eigin tillögu sem lögð yrði fyrir alþingi. Að láta eins og það sé aðför að réttarríkinu að ráðherra fari að lagaákvæðum um þetta efni er fráleitt. Hafi einhverjir gert þetta mál flokkspólitískt eru það vinstri-grænir.

Þegar Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, gerði grein fyrir afstöðu flokks síns sagði hann vandann felast í því að ráðherr hefði ekki rökstutt tillögu sína nægileg vel. Í stjórnskipunar- og eftirlitsefnd hefðu sérfræðingar sagt að þá skorti gögn til að meta tillögu ráðherrans. Svo virtist sem ráðherrann hefði ekki haft nægan tíma til að rökstyðja tillögu sína.

Þetta er allt fyrirsláttur hjá formanni Framsóknarflokksins. Þegar menn segja að þá skorti tíma eða gögn til að velja á milli manna við aðstæður eins og þessar segja þeir í raun að þeir vilji skila auðu eins og framsóknarmenn gerðu við atkvæðagreiðsluna. Hvers vegna skyldu sérfræðingar sem þingnefnd kallar fyrir sig vilja svara spurningum um hvort þeir telja þennan samstarfsmann sinn hæfari en einhvern annan? Skjólið er að skella skuldinni á ráðherrann og segja sig skorta gögn eða rök frá honum.

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra kemur sterk frá þessum átökum. Vissulega tók hún áhættu með því að leggja fram tillögu sína í tímaþröng. Hún lét ekki hrekjast út í ómálefnalegt rifrildi við sundraða stjórnarandstöðu heldur hélt fast á sínu með öruggt bakland stjórnarmeirihlutans í þingnefndinni og þingsalnum.

Ríkisstjórnarsamstarfið styrktist við afgreiðslu þessa máls og annarra mála á lokadögum þingsins. Unnur Brá Konráðsdóttir þingforseti hélt fast við starfsáætlun þingsins og Bjarni Benediktsson forsætisráðherra sigldi stjórnarskútunni þannig að hún lenti ekki í sama brimskafli og risið hefur fyrir frestun þingstarfa undanfarin vor.